*

miðvikudagur, 17. október 2018
Fólk 8. nóvember 2017 09:03

Þrír starfsmenn til Kosmos & Kaos

Kosmos & Kaos hafa fengið þrjá nýja stafræna hönnuði til liðs við sig, þau Áskel Fannar, Baldur Jón og Jónu Dögg.

Ritstjórn
Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos er ánægð með nýju starfsmennina
Haraldur Guðjónsson

Þrír stafrænir hönnuðir hafa bæst í hóp starfsmanna Kosmos & Kaos, en fyrirtækið hefur skapað sér sérstöðu í stafrænum viðskiptum segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Hjá Kosmos & Kaos starfa nú 17 manns og er fyrirtækið með starfsstöðvar að Hólmaslóð 4 í Reykjavík og á Hafnargötu 35 í Reykjanesbæ.  Eigandi fyrirtækisins er Guðmundur Bjarni Sigurðsson sem sinnir einnig starfi hönnunarstjóra.

Lærði og vann í Ástralíu

Áskell Fannar Bjarnason, eða Keli eins og hann kýs að vera kallaður, er þrítugur hönnunargúru frá Þorlákshöfn. Hann býr í Vesturbænum ásamt sambýliskonu sinni og tveggja ára syni þeirra. Keli útskrifaðist úr Margmiðlunarskólanum árið 2010 og flutti til Ástralíu árið eftir, en þar eyddi hann næstu 5 árum í að sanka að sér og skerpa þekkingu og getu sína í öllu því sem við kemur hönnun.

Hann stundaði nám við Billy Blue Hönnunarháskólann og tók BA gráðu í Digital Media Design á milli þess sem hann tókst á við öldurnar á ströndum Sydneyborgar. Keli hefur meðal annars unnið að ýmsum verkefnum hjá fyrirtækjum á borð við ABC (Australia), MRM//McCann, Stan, invoice2go og fleiri.

Lærðu í Danmörku

Baldur Jón Kristjánsson er 35 ára Reykvíkingur með margra ára reynslu sem hönnuður fyrir bæði stafræna- og prentmiðla og vann síðast hjá Já.is sem vöruhönnuður. Baldur bjó í Álaborg í Danmörku frá árinu 2008 og útskrifast úr Álaborgaraháskóla árið 2014 með Msc. í Interactive digital media. Baldur er í sambúð með Guðrúnu Magnúsdóttir og eiga þau saman Rebekku Ísis.

Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir er vefhönnuður með yfir 12 ára reynslu í vefbransanum og kemur úr Garðabænum. Hún er með diplóma í margmiðlunarhönnun frá Nordic Multimedia Academy í Danmörku frá árinu 2006.

Einnig hefur hún lært margmiðlun í Iðnskólanum í Reykjavík (nú Tækniskólanum), iðnhönnun í Iðnskólanum í Hafnarfirði og er stúdent af myndlistar- og handíðarbraut úr Fjölbraut í Garðabæ.  Jóna Dögg er gift Vali Sverrissyni forritara og búa þau í Garðabæ ásamt þremur loðnum kisum.

Mismunandi reynsla mikill virðisauki

Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri er ánægð með viðbótina og segir það ótrúlegan virðisauka fyrir fyrirtækið að fá inn hönnuði með mismunandi reynslu.

“[S]aman búum við að margra áratuga reynslu og þekkingu á þessum markaði. Það er ekkert mál að bæta við starfsfólki, en að bæta við réttu starfsfólki á réttum tíma er happdrætti,“ segir Inga Birna. „Það er ekki ofsögum sagt að við séum afar heppin með alla þá sem skapa Kosmos & Kaos, við erum ekki að reyna að vera stór heldur best.”

Um Kosmos & Kaos

Kosmos & Kaos var stofnað árið 2010 og hefur fyrirtækið vakið athygli fyrir metnaðarfulla vefhönnun, auk áherslu á samfélagslega ábyrgð, umhverfisvernd og lýðræði í ákvarðanatöku. Fyrirtækið hefur einnig verið í vöruþróun á undanförnum árum og hefur styrkt stöðu sína í forritun og stafrænni hönnun.

Á meðal viðskiptavina þess má nefna Arion banka, Vodafone, Orkuveituna, Gagnaveitu Reykjavíkur, Orku Náttúrunnar, Íslandsstofu, Nordic Visitor og Sjóvá. Sautján manns starfa hjá fyrirtækinu í Reykjavík og Reykjanesbæ.