Í afkomuviðvörunum stærstu tryggingafélaganna þriggja, Sjóvá, VÍS og TM kemur m.a. fram að félögin telja nokkra stórbruna og önnur tjón síðustu mánuðina vera einsdæmi á stuttu tímabili og árið því stefna í að verða óvenjuslæmt fyrir tryggingafélög.

Eru þar nefndir til sögunnar stórbrunar í geymsluhúsnæði í Miðhrauni í Garðabæ og í Perlunni í byrjun og lok apríl auk bruna í fiskeldisstöð á Núpum í Ölfusi í lok júnímánaðar. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , segir Snorri Jakobsson hagfræðingur hjá Capacent það aldrei góðan tíma fyrir tryggingafélög þegar toppi hagsveiflunnar hafi verið náð.

„Það er eiginlega versti tíminn, því þá eru tjón í hámarki og hlutabréfamarkaðir hafa þegar tekið út mestu hækkunina, meðan upphaf hagsveiflunnar er mjög góður tími fyrir tryggingafélög,“ bendir Snorri á.  „Á móti kemur er íslenskur hlutabréfamarkaður er almennt mjög lágt verðlagður, en við höfum til viðbótar verið að sjá hressilega lækkun á hlutabréfum ýmissa íslenskra fyrirtækja undanfarið.“

Lækkuðu samt spána fyrir árið

VÍS hafði gert ráð fyrir því í lok febrúar, þegar félagið sendi frá sér uppgjör síðasta árs ásamt afkomuspá fyrir þetta ár, að samsett hlutfall fyrsta ársfjórðungs myndi vera 103%, en myndi síðan lækka í 91% strax á þeim næsta. Uppfærð spá fyrir annan ársfjórðung hljóðaði upp á 95,3% þegar uppgjörið fyrir þann fyrsta var birt 2. maí. Þrátt fyrir hækkunina hafði spáin fyrir árið í heild þó verið lækkuð eilítið, eða niður í 94,9%.

VÍS er eina félagið sem birtir samsett hlutfall mánaðarlega, en það var 117,6% í apríl, 112,8% í maí og 97,0% í júní á þessu ári, sem hefur meðaltalið 109,1%. Samsvarandi tölur fyrir árið 2017 voru 70,9%, 89,8% og 91,9% en samsetta hlutfallið fyrir annan ársfjórðung síðasta árs hjá félaginu var 84,2%.

TM hafði spáð því að samsetta hlutfallið fyrir 1. ársfjórðunginn yrði 106%, eilítið minna en árið áður þegar það hafði verið 106,5%. Það færi síðan í 92% á öðrum ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra var það 106%. Samsetta hlutfallið á fyrsta ársfjórðungi reyndist hins vegar vera 109,8%, en á sama tíma var spáin fyrir annan ársfjórðung hækkuð í 100%.

Sjóvá var það bjartsýnasta fyrir fyrsta ársfjórðunginn, og gerði ráð fyrir 98% samsettu hlutfalli, en það yrði 97% á öðrum ársfjórðungi. Samsetta hlutfallið stefnir í að verða 106% á öðrum ársfjórðungi samkvæmt afkomuviðvörun félagsins, en það var 100,3% á sama tímabili árið 2017.

Spá lægra meðaltali en síðustu ár

Meðaltal samsetts hlutfalls félaganna þriggja verður því 97,3%, sem er lægra en meðaltal síðustu fjögurra ára, gangi spár félaganna fyrir restina af árinu eftir. Frá árinu 2015 hefur meðaltalið lækkað úr 102,9%, þegar það fór hæst, í 99,9% árið 2016 og 98,0% árið 2017.

Snorri segir varhugavert að draga of sterka ályktun af afkomu eins tímabils og jafnvel eins árs. „Sveiflur geta verið í tjónum milli ára og því kannski erfitt að segja hvort árið í ár hafi verið óvenjulega slæmt eða hvort árin á undan hafi verið óvenjulega góð þegar horft ert til tjóna,“ segir Snorri.

„Almennt virðist tryggingarekstur félaganna vera að batna hægt og rólega en það ætti ekki að koma á óvart að tjón séu mikil nú vegna sveiflunnar í hagkerfinu og ytri aðstæðna.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .