Einn af vísindamönnunum sem komu að þróun Líþíum-jóna rafhlöðunnar hefur komið fram með nýja tækni í rafhlöðum, sem er bæði öruggari og hagkvæmari en fyrri rafhlöður að því er segir í frétt Digitaltrends .

John B. Goodenough, prófessor emiritus við Háskólann í Texas , sem er 94 ára að aldri, leiddi ásamt samstarfsmanni sínum, Maríu Helenu Braga, hóp vísindamanna við skólann og hafa þau komið fram með rafhlöðu sem er með þrisvar sinnum meiri geymslugetu en hefðbundin Líþíum-jóna rafhlaða.

Gerð úr gleri

Hægt er að hlaða nýju rafhlöðuna, sem gerð er úr natríum (á ensku Sodium) eða Líþíum húðaðaðri raflausn úr gleri, á nokkrum mínútum og er hægt að nota hana í bæði miklum kulda og hita, eða á bilinu -20 til 60 gráða á selsíus.

Upphaflegar mælingar gefa jafnframt til kynna að hægt sé að hlaða rafhlöðuna að minnsta kosti 1.200 sinnum, sem er mun oftar en hefðbunda Líþíum-jóna rafhlöðu.

Myndar ekki útfellingar

Mesti kosturinn er samt sem áður sá að rafhlaðan myndar ekki útfellingar líkt og hefðbundnar rafhlöður gera sem leiða til þess að þær eyðileggjast hraðar en ella.Goodenough trúir því að nýja rafhlaðan geti verið sú bylting sem þurfi til að hægt sé að gera rafbíla að almannaeign.

„Við trúum því að uppgötvun okkar leysi mörg þau vandamál sem eru viðvarandi í flestum rafhlöðum,“ er haft eftir Goodenough í yfirlýsingu frá háskólanum í Texas.

„Kostnaður, öryggi, orkuþéttleiki, hleðsluhraði og líftími eru lykilatriði í því að rafknúnir bílar geti verið nýttir í meira mæli.“

Frekari þróunarvinnu á pólum rafhlöðunnar þarf þó að fara  áður en hægt verður að framleiða hana í stórum stíl til almannanotkunar.