Wow air hefur pantað þrjár glænýjar Airbus flugvélar til viðbótar við flugflota sinn sem bætast við á næstu misserum, en flotinn verður þá 15 flugvélar árið 2017. Skrifaði félagið undir samning við bandarísku flugvélaleiguna Air Lease Corporation (ALC), eina stærstu flugvélaleigu heims, en fyrirtækið hefur 269 þotur á sínum snærum sem eru leigðar til meira en 101 flugfélags um allan heim.

Pöntunin hljóðar alls upp á fimm þotur, en tvær þeirra verða með svokallaðri NEO (New Engine Option) tækni en það er ný tegund hreyfla sem lækkar eldsneytisnotkun um 20% en Airbus NEO vélarnar eru sagðar þægilegri, landrægari og hljóðlátari en fyrri gerðir í yfirlýsingu Wow air:

„Þessar nýju Airbus „NEO“ vélar eru sniðnar að okkar leiðarkerfi þar sem þær eru bæði langdrægari og sparneytnari munum við geta boðið upp á nýja áfangastaði ásamt því að halda áfram að lækka verðið enn frekar“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.