Um 880 þúsund manns í Japan hafa tapað stærstum hluta lífeyrissjóðs síns, að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórnvöldum. AIJ Investment Advisors sá um að ávaxta peningana, en horfur eru á að fyrirtækið hafi tapað 2,3 milljörðum dollara eða tæplega 300 milljörðum króna.

Rannsókn á fjármálum AIJ hefur leitt í ljós að fyrirtækið hefur um langt árabil birt rangar tölur um afkomu lífeyrissjóðanna sem það rak. Ársreikningar sýndu mjög góða afkomu sjóðanna, en í reynd var umtalsvert tap á starfsemi þeirra.

Á undanförnum árum hefur AIJ skilað miklu betri ávöxtun en aðrir lífeyrissjóðir, 8% árið 2007 og 7% árið 2008, á meðan flestir japanskir lífeyrissjóðir töpuðu fé. Eins og áður segir hefur hins vegar komið í ljós að hin góða afkoma var hins vegar ekki raunveruleg.

Ekki er ljóst eins og stendur hvort um bókhaldssvik hafi verið að ræða, en aðstæður eru sagðar mjög svipaðar og hjá fyrirtækinu Olympus, en þar kom nýlega upp 1,7 milljarða dala bókhaldshneyksli. Þar, sem og í AIJ, voru lykilstarfsmenn fyrrverandi starfsmenn Nomura bankans, að því er segir í frétt New York Times.