Þrjú norsk loðnuskip komu með afla til Neskaupstaðar í nótt og verður afli þeirra unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Manon kom með 320 tonn og Birkeland og Torbas með 500 tonn hvor. Vinnsla á loðnu hófst í fiskiðjuverinu í gær og segir Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri á vef Síldarvinnslunnar að um sé að ræða stóra og fallega loðnu sem henti vel til frystingar. Segir hann að hrognafyllingin sé um 10%.

Aflann fengu norsku skipin út af Austfjörðum og segja skipstjórar þeirra að loðnu sé víða að sjá í töluverðum mæli. Gallinn sé hins vegar sá að hún hafi staðið djúpt þannig að þeir hafi átt í erfiðleikum með að ná henni í nótina. Í gær gekk nótaveiðin þó betur en áður og fengust þá allt upp í 700 tonna köst.