Viðskiptahugmyndin Atmonia vann Gulleggið 2017, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Að hugmyndinni standa Arnar Sveinbjörnsson, Egill Skúlason og Helga Dögg Flosadóttir. Atmonia þróar byltingarkennt ferli til umhverfisvænnar áburðarframleiðslu á smáskala.

Ferlið nýtir vatn og rafmagn til framleiðslu á áburði á vökvaformi sem hentar til dreifingar með úðakerfi. Hugmyndin, sem gengur út á að framleiða ammóníak, gerir bændum kleift að framleiða sinn eigin köfnunarefnis­ áburð og minnka kolefnisspor sitt í leiðinni. Helga Dögg segir hugmyndina hafa kviknað árið 2003 hjá Agli Skúlasyni en vinna hafi hafist við hana fyrir alvöru árið 2012 við Háskóla Íslands og með aðkomu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá 2014. Hún segir að ammóníak sé framleitt með hundrað ára gamalli aðferð.

„Það má samt ekki gera lítið úr henni því sú aðferð lagði grunninn að nútímalandbúnaði og öllu fæðuöryggi sem við þekkjum á heimsvísu í dag.“ Aðferðin heitir eftir höfundunum, Haber og Bosch, en þeir fengu Nóbelsverðlaunin í efnafræði fyrir framlag sitt til uppgötvunarinnar.

„Hún er hins vegar orðin hundrað ára gömul og hefur lítið breyst. Aðferðin notar jarðgas í framleiðsluferlinu þannig að fyrir hvert tonn af ammóníaki sem er framleitt myndast tvö tonn af koltvíoxíð. Okkar aðferð mun ekki framleiða neitt koltvíoxíð heldur framleiðir ammóníak einungis úr lofti og vatni. Eina aukaafurðin verður súrefni,“ segir Helga Dögg. Tölvutæknin reið baggamuninn Hún segir bakteríur geta framleitt ammóníak með þessum hætti við herbergishita og -þrýsting.

„Þær nota við það flókið kerfi og ensím sem við mannfólkið höfum ekki getað endurtekið. En við erum að herma eftir þeim því það á sér stað rafefnafræði í þeim. Við notum hana til að framleiða ammóníak. Lykillinn okkar, sem enginn hefur haft hingað til, eru tölvur. Fyrsta skrefið í okkar þróunarferli var að nota skammtafræðilega útreikninga til að herma hundrað mismunandi útgáfur af hvötum. Síðan völdum við úr niðurstöðunum fjóra mismunandi hvata sem virka til að framleiða ammóníak.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .