Mikil umræða hefur skapast að undanförnu um uppsafnaða þörf á innviðaframkvæmdum og eru flestir sammála um að innviðir á borð við vegakerfið séu komnir að þolmörkum. Framlög til Vegagerðarinnar hafa dregist mikið saman á undanförnum árum og segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri slæmt að horfa upp á það að ekki sé hægt að við­halda almennilega þeirri uppbyggingu sem ráðist var í á vegakerfinu á níunda og tíunda áratugnum.

Fjárveiting minnkað frá níunda og tíunda áratugnum

Árið 2015 bauð Vegagerðin út 69 verkefni, sem er það mesta sem boðið hefur verið út á árunum eftir efnahagshrun. Sem dæmi má nefna að aðeins var boðið út 31 verkefni árið 2009 en það er það lægsta sem sést hefur á síðustu þrjátíu árum. Að sama skapi fækkaði útboðum hjá Vegagerðinni á tímabilinu 2004 til 2015 töluvert samanborið við fjölda útboðinna verka á níunda og tíunda áratugnum. Þannig voru til að mynda 89 verk boðin út árið 1985 og 103 verk árið 1993. Tölfræði um fjölda útboða vegagerðarinnar segir þó ekki alla söguna, enda verkin misstór og umfangsmikil.

Fjárframlög til Vegagerðarinnar hafa hins vegar einnig dregist töluvert saman undanfarin sjö ár. Þannig má sjá að framlög til stofnunarinnar námu rúmum 44 milljörðum árið 2008 á núverandi verðlagi samanborið við tæpa 25 milljarða árið 2015. Þrátt fyrir það er ljóst að framlögin hafa verið að aukast lítillega undanfarin þrjú ár, eða frá árinu 2012 þegar þau náðu lágmarki og voru rúmir 17 milljarðar. Svipað dreifingu má sjá þegar litið er til fjárveitinga til stofnkostnaðar, þ.e. nýrra framkvæmda. Fjárveiting til málaflokksins náði þannig hámarki árið 2008 þegar hún nam rúmum 32 milljörðum króna á verðlagi dagsins í dag. Fjórum árum síðar, eða árið 2012, veitti ríkið hinsvegar aðeins rúma 6 milljarða til nýrra vegaframkvæmda á sama verðlagi. Sú tala reis smám saman upp í 10 milljarða árið 2015, sem er þó enn þrefalt minna en árið 2008.

Stofnkostnaður
Stofnkostnaður
© vb.is (vb.is)

Þurfa 400 milljarða til að koma vegakerfinu í rétt horf

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að undanfarin ár hafi það reynst erfitt að þoka áfram þróun á vegakerfinu sem nú sé langt á eftir flestum löndum í kringum okkur bæði hvað varðar nýframkvæmdum og viðhald. „Ég hef lagt sérstaka áherslu á við­ haldið og notað hvert einasta tækifæri til að vekja athygli á þeim skorti á fjármunum sem lagðir hafa verið í slík verkefni. Á níunda áratugnum var byrjað að fjárfesta í mikilli uppbyggingu á vegakerfinu og lagt slitlag á malarvegi víðs vegar um landið og þeir byggðir upp í nútímalegt horf og það er mjög slæmt að horfa upp á það að slíkum fjárfestingum sé ekki viðhaldið. Það hefur í raun verið helsta áhyggjuefni okkar undanfarin ár að þessi mannvirki séu að grotna það mikið niður að það verði að endingu mjög dýrt að ná þeim aftur í viðunandi ástand. Þá er ég ekki síst að tala um burðar­ þol vegna flutningastarfsemi, fyrir utan almennt ástand veganna sem hefur áhrif á umferðaröryggi,“ útskýrir Hreinn.

Hreinn segir að Vegagerðin hafi áætlað að það þurfi um 400 milljarða króna til að koma vegakerfinu í það horf sem gert sé ráð fyrir í langtímaáætlunum samgöngumála og aðrar þjóðir hafa gert. Í því felist m.a. að byggja upp og leggja slitlag á þá fjölförnu malarvegi sem eftir eru, styrkja burðarþol helstu flutningaleiðanna, endurbyggja og endurbæta mikið af dýrum og stórum brúarmannvirkjum og fara aftur yfir og breikka og styrkja vegakerfi sem byggt var á níunda áratugnum og árunum þar á eftir. Vegirnir séu orðnir of mjóir fyrir þá miklu umferð sem er í dag og beri ekki allan þann þunga sem nú fari um þá vegna aukinna vöruflutninga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að ýta á hlekkinn Tölublöð.