Þýska flugfélagið Lufthansa neyðist til þess að aflýsa 900 flugferðum næsta miðvikudag vegna verkfalls flugmanna félagsins. Aðgerðir flugmannanna hafa áhrif á flug 100 þúsund farþega. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Lufthansa .

Öll flug dótturfélaga sem eru meðal annars Eurowings, Swiss, Austrian Airlines, Air Dolomiti og Brussel Airlines haldast hins vegar óbreytt. Aðgerðin er hluti af langvinnum kjaradeilum verkalýðssamtaka þýskra flugmanna og flugfélagsins.

Verkalýðssamtök flugmanna krefjast þess að laun flugmanna verði hækkuð um 3,7%. Lufthansa hefur hins vegar boðið flugmönnum 2,5% launahækkun.