*

laugardagur, 22. september 2018
Innlent 16. apríl 2018 16:46

Þurfa ekki að borga ráðgjafanum

Framsóknarflokkurinn þarf ekki að greiða fimm milljónir fyrir vinnu við að laga ímynd Sigmundar Davíðs.

Ritstjórn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Haraldur Guðjónsson

Framsóknarflokkurinn var í dag sýknaður af kröfu ráðgjafarfyrirtækisins Forystu um greiðslu rúmlega fimm milljóna vegna vinnu fyrir flokkinn í tengslum við Alþingiskosningar 2017. Segja má að málið sé samofið valdabaráttu innan Framsóknarflokksins eftir að Panama skjölin komu fram.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að fyrir tilstilli Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, þáverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, hafi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins komist í samband við Viðar Garðarsson, framkvæmdastjóra Forystu. 

Sigmundi Davíð á að hafa litist vel á hugmyndir Viðars um hvernig mætti vinna gegn neikvæðri ímynd þess fyrrnefnda í kosningabaráttunni. Viðar átti í kjölfarið fund með Sigurði Hannessyni, núverandi framkvæmdastjóra SI, Lilju Alfreðsdóttur og Sigmundi Davíð. Nokkrum dögum eftir þann fund hafði Viðar teiknað upp kosningabaráttu sem átti að kosta 100 milljónir króna og kynnti hana fyrir Hrólfi Ölvissyni, sem hafði nokkrum mánuðum áður sagt upp sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins vegna Panama-skjalanna. Hrólfur á að hafa fengið „áfall“ við að heyra upphæðina og sagt Viðari að slíka fjármuni ætti flokkurinn ekki. 

Eftir það hittust Sigmundur Davíð og Viðar aftur en á fundi þeirra var ákveðið að gera þrennt. Í fyrsta lagi að taka nýjar myndir af Sigmundi Davíð vegna þess hve neikvæðar myndir höfðu birst af honum í umfjöllun fjölmiðla um Panama-skjölin. Í öðru lagi myndi Viðar setja upp vefsíðuna panamaskjolin.is þar sem ætlunin hafi verið að „setja strik í sandinn og taka til varna“. Í þriðja lagi yrði vefurinn islandiallt.is smíðaður en með honum var ætlnunin að „sækja fram“. Þá fékk Viðar einnig eiginmann Guðfinnu Jóhönnu, Svan Guðmundsson til þess að greina hvaða blaðamenn hafi verið að skrifa hvað um Sigmund Davíð og hverjir væru honum erfiðastir. 

Sigmundur Davíð bað Viðar í kjölfarið að senda framkvæmdastjórn flokksins bréf vegna fyrirhugaðra starfa fyrir flokkinn og hvernig vinnu hans yrði háttað. Í bréfinu er óskað eftir því við framkvæmdastjórn flokksins að hún veiti formanni heimild til að hefja samtarf við undirritaðan. Þessu bréfi var aldrei svarað og heimildin því aldrei veitt.

Af dómi héraðsdóms er ljóst að vitnisburður myndatökumannsins sem myndaði Sigmund Davíð á miðstjórnarþingi flokksins á Akureyri vegur einnig þungt. Hann sagði að efnið sem hann hefði útbúið hefði aðeins verið fyrir kosningaherferð Sigmundar en ekki Framsóknarflokksins.

Í dómnum kemur einnig fram að eftir að Viðar sendi Framsóknarflokknum reikning fyrir vinnu sinni hafi framkvæmdastjóri flokksins talið að um mistök hafi verið að ræða þar sem flokkurinn kannaðist ekki við að hafa beðið um eða keypt þá þjónustu sem tilgreind væri í reikningnum. Þá hafi Viðar haft samband við Sigmund Davíð sem lagði þá út fyrir stefnda þann hluta reikningsins sem var vegna útlagðs kostnaðar sem nam tæplega 1,1 milljón króna.