Reykjaneshöfn hefur skuldbundið sig til að ráðast í framkvæmdir við Helguvíkurhöfn vegna samninga við fyrirtækin Thorsil og United Silicon. Hins vegar hafa hvorki höfnin né eigandi hennar, Reykjanesbær, fjárhagslegt bolmagn til að fjármagna framkvæmdirnar.

Minnisblað vegna óskar um ríkisstyrk til framkvæmdanna var lagt fram í bæjarráði í síðustu viku. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur haft það til skoðunar að veita sérstakan styrk til framkvæmdanna. Nú er hins vegar óskað eftir stuðningi við Reykjaneshöfn í gegnum Hafnabótasjóð á sama grundvelli og aðrar hafnir.

Eigið fé neikvætt um 4,5 milljarða

Reykjaneshöfn hefur skilað neikvæðri rekstrarafkomu á hverju ári frá stofnun félagsins árið 2005. Mest var tapið árið 2012, eða 667 milljónir króna. Uppsafnað tap Reykjaneshafnar frá 2005 er yfir 4,1 milljarður króna. Rekstrarvanda Reykjaneshafnar virðist að miklu leyti mega rekja til þess hversu há fjármagnsgjöld félagsins eru í samanburði við rekstrartekjur þess. Á tímabilinu frá 2005 til 2014 námu fjármagnsgjöld Reykjaneshafnar 160% af rekstrartekjum hennar.

Skuldir félagsins voru 7,8 milljarðar króna í lok síðasta árs, en um 2,9 milljarðar þeirra voru vegna víkjandi láns frá Reykjanesbæ. Eigið fé Reykjaneshafna var neikvætt um 4,5 milljarða króna í lok síðasta árs. Til samanburðar var jákvætt eigið fé KEA 4,5 milljarðar í lok árs 2013. Eigið fé Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins var af sömu stærð.

Nýjar lántökur Reykjaneshafnar frá 2005 til 2014 voru 2,8 milljarði króna meiri en afborganir hafnarinnar af skuldum sínum. 1,8 milljarður þessara lána fóru í fjárfestingar. Tæpur milljarður fór í að fjármagna nær stöðugan hallarekstur félagsins.

Langan tíma að þróa iðnaðarsvæði

Auk þess að reka fimm hafnir í Reykjanesbæ á Reykjavíkurhöfn lóðir á iðnaðarsvæðinu í Helguvík og hefur umsjón með markaðssetningu svæðisins. Svæðið hefur verið skilgreint sem iðnaðarsvæði í um þrjá áratugi, en lítil uppbygging hefur átt sér stað.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, að langan tíma geti tekið að þróa iðnaðarsvæði. Hann bendir á að 25 ár hafi liðið frá því að járnblendi kom á Grundartanga og þangað til álver var reist þar. "Það er ekki eins og það sé nýtt fyrirtæki að spretta upp í hverjum mánuði," segir Halldór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .