Rætt var við Sigurð Inga í Viðskiptablaðinu í vikunni.

„Ég tek ekki undir þá umræðu sem verið hefur allt of lengi að hér þurfi að bylta mörgu. Það þarf vissulega að gera kerfisbreytingar og heilbrigðiskerfið er gott dæmi sem við ætlum að leggjast vel yfir. Þar þarf sannarlega kerfisbreytingu,“ segir Sigurður Ingi og bendir á það misræmi sem er á greiðslum til opinbera kerfisins annars vegar og greiðslum Sjúkratrygginga Íslands hins vegar.

„Þarna er kerfisbreyting sem þarf að takast á við. Ekki vegna þess að það sé alslæmt og þurfi að umbylta, heldur þarf að gera betur. Það er hægt að laga hluti með látum og meirihlutaræði en niðurstaðan verður farsælli með víðtækri sátt og að horft sé til lengri tíma. Það er líklegra að hlutirnir haldi ef fleiri koma að. Ef stjórnarskipti eru mjög tíð, þá komumst við bara ekki neitt ef menn ætla alltaf að eigin sögn að bylta öllu í anda síns flokks.

Til að tryggja að það sé meiri sátt í samfélaginu og fleiri á bak við breytingarnar, sem eru vonandi alltaf í rétta átt, geturðu þurft að sætta þig við að fara aðeins hægar en þú kemst örugglega á endastöðina og fleiri eru sáttir við að fara þangað.“ Heldurðu að þessi hugsunarháttur nái að smitast út í samstarfsflokkana? „Já, ég held það. Verandi formaður í miðjuflokki í samstarfi við flokka lengst til hægri og vinstri í hefðbundnum skilningi, þá held ég einmitt að þessi hugmyndafræði henti mjög vel. Og það hentar mér mjög vel.“

Rafbílar bæði tækifæri og áskoranir

Rafbílar hafa undanfarin ár orðið raunhæfur kostur fyrir fleiri Íslendinga. „Við höfum séð undanfarin tvö ár og sérstaklega í ár að um 25% nýrra bíla á Íslandi eru ýmist rafbílar, tvinnbílar eða umhverfisvænni bílar. Með þessu áframhaldi náum við þeim orkuskiptum í samgöngum á nokkrum árum, sem margir töldu mjög metnaðarfull. Samhliða þessu þurfum við að velta fyrir okkur skattlagningunni. Við höfum afnumið vörugjöld og virðisaukaskatt af þessum bílum og eldsneytisgjöldin greiða þeir ekki.

En þegar þessi floti verður af einhverri tiltekinn stærð þá þurfum við að endurhanna þetta kerfi okkar – eitthvað sem hefur verið í skoðun í fjármálaráðuneytinu. Margar þjóðir hafa horft á notkunina, einhverskonar kílómetragjald, þannig að það kosti mismikið að keyra mismunandi leiðir. Mánaðarleg rukkun yrði þá send í samræmi við akstur og eftir því hvaða vegi er farið. Við erum ekki komin þangað en þurfum að fara að huga að þessari tegund notkunargjalds.

Óbilandi áhugi á samfélaginu

Hvað er það sem fær þig til að vilja taka þátt í stjórnmálum? „Ég hef oft spurt mig þessarar spurningar, sérstaklega síðastliðið eitt og hálfa ár,“ segir Sigurður Ingi og brosir. „Þegar ég hafði verið í sveitarstjórn í fimmtán ár sagði ég við sjálfan mig að ég væri búinn að skila mínu. Að einhverju leyti er þetta óbilandi áhugi á samfélaginu og löngun til að taka þátt í að móta framtíðina. Svo halda sumir því fram að þetta sé vírus. Ég vona ekki. En á meðan þú hefur gaman af því sem þú ert að gera, þrátt fyrir ýmis leiðindi eða þröskulda á leiðinni, þá áttu að vera í þessu. Maður á að vera í þessu meðan maður gerir gagn og hefur gaman af.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .