Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti sjónvarpsávarp fyrir þjóðina í gær, þar sem hann varaði við „versnandi mannúðar- og öryggiskrísu“ við landamæri landsins við Mexíkó. Trump lýsti þó ekki formlega yfir neyðarástandi, eins og hann hafði áður gefið í skyn að hann kynni að gera.

Allar helstu sjónvarpsstöðvar landsins sendu beint út frá hinu 9 mínútna ávarpi, en í því ítrekaði Trump mikilvægi þess að tryggja 5,7 milljarða dollara, tæplega 700 milljarða króna, fjármögnun fyrir byggingu veggjar við syðri landamærin.

Þá kenndi hann Demókrataflokknum um tímabundna lokun margra ríkisstofnana, sem staðið hefur yfir frá því fyrir jól, og er nú orðin sú næst-lengsta í sögu Bandaríkjanna, vegna þess að engin fjárlög hafa verið samþykkt. Nancy Pelosi, forseti neðri deildar Bandaríkjaþings og Chuck Shumer, þingflokksformaður Demókrata í öldungadeildinni, svöruðu því til að þau væru sammála um þörfina á auknu landamæraöryggi, en að landamæraveggur væri ekki rétta leiðin til að bæta það, og þau myndu ekki samþykkja fjárveitingar til byggingar hans.

Trump fullyrti í ávarpinu að landamærakrísan hefði skaðleg áhrif á Bandaríska ríkisborgara í atvinnuleit, á sama tíma og hún ýtti undir neyslu ólöglegra eiturlyfja og ofbeldi gegn ríkisborgurum.

„Þúsundir til viðbótar munu týna lífinu ef við bregðumst ekki strax við,“ sagði Trump. „Alríkisstjórnvöld liggja niðri af einni, og aðeins einni ástæðu: af því að Demókratar neita að fjármagna landamæraöryggi,“ en í umfjöllun Financial Times er það sagt alrangt að Demókratar neiti því.

Trump hafði áður gefið í skyn að hann kynni að lýsa yfir neyðarástandi við landamærin, sem gæfi honum víðtæk völd og myndi gera honum kleift að reisa vegginn – sem var eitt af hans helstu kosningaloforðum – án samþykkis þingsins.