Vegagerðin hefur sent frá sér ítarlega frétt um gerð Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, en hún telur svokallaða leið Þ-H sem sker langan og mjóan og ósnortinn landsnámsskóginn við norðurströnd Þorskafjarðar eftir honum endilöngum vera bestu leiðina.

Skipulagsstofnun ekki lengur úrskurðaraðili

Þeirri leið hafði verið hafnað af Skipulagsstofnun árið 2006, en nú hefur lagaumhverfinu verið breytt svo stofnunin gefur einungis mat á umhverfisáhrifum, í stað þess að úrskurða eins og áður.

Miðast mat Vegagerðarinnar við þær fimm leiðir sem hafa verið til skoðunar, en þar af liggur svokölluð leið A-1 eftir suðurströnd Þorskafjarðar og þverar Þorskafjörðinn við minni hans.

Sú leið er talin öruggust miðað við umferðaröryggismat Vestfjarðarvegar, en munurinn á þeirri leið og leið Þ-H er þó að mati verkhóps um umferðaröryggismat svo lítill að ekki skipti máli hver þeirra verði fyrir valinu.

Áhrif af þverun miðast við vegagerð um ósnortið land

Leið A-1 er þó talin hafa mestu umhverfisáhrifin, en þá er gert ráð fyrir því að vegur sé lagður eftir norðanverðu Reykjanesinu, þó vegur sé nú þegar til staðar á sunnanverðu nesinu sem liggi í gegnum Reykhóla en þar er nú þegar vegur til staðar nálega alveg út að þeim stað sem leið H-1 eigi að þvera Þorskafjörðinn.

Byggir mat á umhverfisáhrifum af þeirri leið á áhrifum á votlendi auk þess sem ekki sé fullkannað hver áhrifin yrðu á strauma í firðinum sem eru talin töluverð.

Vilji sveitarfélaganna að fara í gegnum Teigsskóg

Jafnframt færir Vegagerðin rök fyrir leið Þ-H á þeim forsendum að sú veglína sé í samræmi við gildandi skipulag sem lýsi vilja sveitarfélagsins og heimamanna til vegalagningar á þessu svæði.

Vegagerðin segir muna 4 milljörðum króna hið minnsta í kostnaði á leið Þ-H og þeim kostum sem taldar eru koma næst þeim í kostnaði, það er leið I sem þverar Þorskafjörð við enda Hallsteinsnes þar sem Teigsskógur er staddur.

Jafnframt muni 4,5 milljörðum á leiðinni í gegnum Teigsskóg, leið Þ-H og leið D2 sem gerir ráð fyrir jarðgöngum í gegnum Ódrjúgsháls sem er annar mesti vegatálminn á Vestfjarðarveginum á eftir Klettshálsi í botni Kollafjarðar.