Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins bendir á að ef hugmyndir um vísitöluhækkun persónuafsláttar yrðu að veruleika myndu þær nánast þurrka út allar tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga.

Á síðasta ári námu tekjur ríkissjóðs af honum 150 milljörðum, en tekjurnar myndu minnka um 130 milljarða ef skattleysismörk yrðu hækkuð í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 1990.

Skilgreind skattbyrði innihélt minni bætur

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um var talað um það í nýlegri skýrslu ASÍ að „skattbyrðin“ hefði aukist á alla skattgreiðendur, en mest á þá tekjulægstu m.a. vegna þess að skattleysismörkin hefðu ekki hækkað úr 150 þúsund í 320 þúsund eins og ef þau hefðu fylgt vísitölunni.

En auk áhrifa af sköttum var tekið fram í skýrslunni að hugtakið skattbyrði væri í þessu samhengi skilgreint þannig að minni bætur af ýmsu tagi var tekið með sem aukning á skattbyrði.

VR vill lækka skatta um 60 þúsund á alla

Í síðustu viku ályktaði síðan stjórn VR að markmið þessa stærsta stéttarfélags landsins væri að persónuafsláttur yrði endurskoðaður til samræmis við hækkun launavísitölunnar frá árinu 1990 svo lægstu laun væru skattfrjáls.

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu bendir Halldór á að slík aðgerð myndi lækka mánaðarlegar skattgreiðslur hvers einstaklings sem myndi fullnýta afsláttinn um tæpar 60 þúsund krónur, algerlega óháð því hve mikil laun hann væri með.

75% færu til þeirra tekjuhæstu

„Kostnaður ríkissjóðs af því að endurskoða persónuafslátt til samræmis við launavísitölu frá árinu 1990 væri því að minnsta kosti 133 milljarðar og af þeirri fjárhæð færu 74% til þeirra tekjuhæstu,“ segir Halldór Benjamín en honum þykja tillögurnar óraunhæfar.

„Ef ætlunin er að fækka þeim í einu vetfangi sem taka þátt í að greiða skatta verður einungis gert með þeim hætti að velta þeim byrðum á aðra nema samsvarandi tekjusamdráttur komi á móti.

Sú aðgerð myndi þýða verulega hækkun grunnskattprósentu og aukinheldur draga um leið kröftuglega úr hvata til vinnu fyrir þau 137 þúsund framteljenda sem fá þau „forréttindi“ að borga hærri skatta með tilheyrandi neikvæðri bjögun á framleiðslu og lífskjör í landinu. Þá er betur heima setið en af stað farið.“

100 milljarða minni tekjur af tekjuháum

Í greininni bendir Halldór Benjamín einnig á að tæplega 50 þúsund framteljendur greiði engan skatt í dag því tekjur þeirra væru undir 150 þúsund krónum á mánuði, en að þeim meðtöldum væru tæplega 265 þúsund sem nýti ekki persónuafsláttinn til fulls í dag.

Tæplega 80 þúsund framteljendur til viðbótar væru síðan með tekjur á milli núverandi skattleysismarka og 320 þúsund króna. Minni skattur á þessa aðila myndi þá þýða tekjutap fyrir ríkið sem næmi rúmum 34 milljörðum króna. Til viðbótar við þessa aðila væri svo tæplega 100 milljarða krónur í minni tekjur af þeim sem eru með tekjur yfir 320 þúsund krónur.