Óeining er innan Sjálfstæðisflokks um það hver eigi að verða næsti varaformaður flokksins. Um þessar mundir beinast sjónir annars vegar að Ólöfu Nordal, núverandi innanríkisráðherra og fyrrverandi varaformanni flokksins, og hins vegar að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra og núverandi varaformanni. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er því haldið fast að Ólöfu að bjóða sig fram til embættisins á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins í október næstkomandi. Ólöf gegndi embættinu frá 2010 til ársins 2013, þangað til Hanna Birna var kjörin varaformaður.

Aðrir heimildarmenn blaðsins segja hins vegar að þeir sem hafi verið Hönnu Birnu hliðhollir hugnist Ólöf illa sem varaformaður flokksins, einkum af þeirri ástæðu að hún og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, séu nánir samstarfsmenn. Eins og kunnugt er bauð Hanna Birna sig fram í formannskjöri á landsfundi flokksins árið 2011, þegar hún hlaut 45% atkvæða en Bjarni 55% og ekki launungarmál að þau tvö hafa ekki alltaf átt skap saman. Þykir stuðningsmönnum Hönnu Birnu að framvarðasveit flokksins verði helst til þéttskipuð í kringum formanninn, ef Ólöf Nordal yrði kjörinn varaformaður flokksins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .