Rúmum 14 árum eftir innleiðingu evrunnar í Þýskalandi, má enn finna umtalsvert af þýsku marki í umferð. Samkvæmt Bundesbank, seðlabanka Þýskalands, nema upphæðirnar allt að 12,76 milljörðum mark, eða 6,53 milljörðum evra á núvirði. Þetta kemur fram á vef Tagesschau.

Hins vegar er gjaldmiðillinn lítið notaður til verslunar og viðskipta. Einstaklingar hafa aðallega varðveitt mynt og seðla í einhverskonar nostalgíu. Tíu marka seðilinn og tíu pfenning myntin eru vinsælustu safngripirnir. Áætla má að um 72 milljónir slíkra seðla og 9,7 milljarðar slíkra mynta séu í umferð.

Seðlabankinn hefur aftur á móti engar tölur um það hversu mikið af markinu gæti verið ónýtt eða tínt. Frá árinu 2002 hefur rúmlega 95% af áður útgefnu marki verið skilað inn til bankans. Þjóðverjar geta enn skilað inn gamla gjaldmiðlinum, sem er heldur óvenjulegt. Frakkar og Ítalir hafa nú þegar lokað á þann möguleika í sínum heimalöndum.