Mikill meirihluti þýskra þingmanna greiddi því atkvæði sitt í dag að samþykkja neyðarlán til Grikklands til næstu þriggja ára. BBC News greinir frá þessu.

Grísk stjórnvöld komust að samkomulagi við alþjóðlega lánveitendur í síðustu viku. Hljóðar samkomulagið upp á 85 milljarða evra neyðarlán til Grikklands til næstu þriggja ára, en gegn því að fá lánið þarf gríska ríkið að hækka skatta og skera niður í ríkisrekstri í miklum mæli.

Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, hafði fyrir atkvæðugreiðsluna í þýska þinginu sagt að það yrði óábyrgt að hafna samkomulaginu. Mikill meirihluti þingmannanna var honum sammála og samþykkti því veitingu neyðarlánsins af hálfu Þýskalands.