Til á prenti:

„Mér hefur heyrst vera rígur milli íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar, en hversu djúpt hann ristir veit ég ekki,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Sambands veitinga- og gistihúsa. Erna er Reykvíkingur og segir leið sína sjaldan liggja út á land. Því verði hún lítið vör við ríg milli landshluta.

„Ég geri ráð fyrir að landsbyggðarbúar líti til þess að hér í Reykjavík er stutt í allar stofnanir og nauðsynjar. Og ugglaust hefur þetta eilífðarvandamál landbúnaðarins og þrot þeirrar stefnu hjá ríkisstjórninni sett neikvæðan stimpil á landsbyggðina. Hvað Reykvíkinga varðar, þá held ég að þeir líti á sveitasæluna á landsbyggðinni með glýju í augum. Foreldrar á höfuðborgarsvæðinu borga stórfé til að koma börnum sínum í sveit.“

Hefur rígurinn aukist? „Nei, ég hef ekki orðið vör við að hann hafi breyst neitt. Ég tel hann ekki vera neitt vandamál. Við erum öll eins að upplagi, þó að við höfum ef til vill tamið okkur ólíkan lífsstíl. Við getum ekki án hvors annars verið.“ Segir Erna Hauksdóttir sem þá var framkvæmdastjóri Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda.

Viðtalið birtist í Morgunblaðinu árið 1989 þar sem Morgunblaðið gerði athugun á hvort togstreita milli íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar væri staðreynd. Sú könnun sýndi að sú togstreita hafi verið meira í ætt við hrepparíg en alvarlegan klofning. Landsbyggðarfólki fannst höfuðborgarbúar linmæltir, stressaðir og lokaðir en höfuðborgarbúum fannst landsbyggðarfólk öfundsjúkt út í höfuðborgarbúa.