Eyþór Arnalds frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna sem fram fer til klukkan 18:00 í dag segir afstöðu sína í tveim hitamálum sem upp hafa komið í kosningabaráttunni skýra, það er í málefnum Reykjavíkurflugvallar eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um og mismunun gagnvart trúfélaginu Hjálpræðishernum varðandi lóðagjöld. Jafnframt ræddi Eyþór um 80% aukningu skulda borgarinnar á kjörtímabilinu .

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá kaus einn mótframbjóðandi Eyþórs, Áslaug María Friðriksdóttir, að styðja ekki tillögu annars mótframbjóðanda, Kjartans Magnússonar um að Hjálpræðisherinn fengi niðurfelld lóðagjöld vegna nýrrar lóðar við Sogamýri.

Það er þrátt fyrir að borgarstjórnarmeirihluti Vinstri grænna, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata hafi úthlutað öðru trúfélagi, Félagi Múslima, án endurgjalds eina af mest áberandi lóðum í borgarlandinu, á horni Miklubrautar og Sæbrautar, þar sem hún mætir Reykjanesbraut, sem er einmitt við hliðina á minna áberandi lóð Hjálpræðishersins.

,,Í mínum huga á hið opinbera að styðja við bakið á þeim sem láta gott af sér leiða, hvort sem það eru sjálfboðaliðar eða aðrir. Hjálpræðisherinn er ein sú stofnun í samfélaginu sem gert hefur hvað mest fyrir lítilmagnann og þá sem þurfa á aðstoð," segir Eyþór.

,,Það er hreinlega skylda stjórnmálamanna að greiða götu þessara aðila og að það skuli akkúrat steyta á Hjálpræðishernum að fá sömu fyrirgreiðslu í lóðaúthlutun eins og önnur trúfélög er til skammar."