Stjórnarráðið lauk útboði á farmiðakaupum nýlega. Þá var bæði boðinn út tiltekinn fjöldi miða til og frá Íslandi á algengustu áfangastaði ráðuneyta en auk þess voru boðin út afsláttarkjör á hverjum tíma á alla áfangastaði.

Í fyrsta tilfellinu var aðeins eitt tilboð sem barst og var það frá WOW air. Samið verður við WOW air varðandi það tilboð, en útboðið sem um ræðir gildir um ríflega 30% allra flugferða ráðuneyta sem farin eru á ári hverju.

Hvað varðar hitt útboðið bárust tilboð bæði frá Icelandair og WOW air. Forsenda útboðsins var þá að samkeppni yrði milli samningsaðila. Mat Ríkiskaupa, sem hafði umsjón með útboðinu, var þá það að tilboð Icelandair væri ógilt.

Þar eð annað tveggja tilboða var ógilt uppfylla niðurstöður útboðsins ekki fyrirfram sett skilyrði og grunnforsendur þess. Því verður ekki samið um niðurstöður útboðsins. Stjórnarráðið mun endurtaka útboðið von bráðar. Frá þessu segir í tilkynningu Stjórnarráðsins.