Erlendir fjárfestar bættu um 1,2 milljörðum við fjárfestingar sínar í íslenskum skuldabréfum í febrúar og fór heildareign þeirra upp í 1,8 milljarða króna.

Einnig fjárfestu erlendir aðilar um 400 milljónum króna í hlutabréfasjóðum og fór eign þeirra í 500 milljónir í mánuðinum.

17 milljarða fjárfesting frá áramótum

Á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá áramótum hafa erlendir aðilar fjárfest um 17 milljörðum króna í hlutabréfum skráðum í Kauphöll Nasdaq Iceland að því er segir í Morgunblaðinu.

Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka segir erlenda aðila sem áttu krónueignir fyrir innleiðingu reglna um bindingu reiðufjár í júní 2016 geta ráðstafað eignum sínum meira og minna að vild, þar á meðal í skuldabréfasjóði.

Kom inn áður en bindiskyldan var sett á

„...ekki hægt að ráða í það af tölunum sem vísað er til hvort nokkuð annað er á ferðinni en tilfærsla milli fjárfestinga hjá þeim erlendu aðilum sem þegar áttu skráðar krónueignir áður en bindiskylda vegna nýs innstreymis var sett á í júní í fyrra,“ segir Jón Bjarki.

„Þeir aðilar sem komu með fjármagn inn samkvæmt nýfjárfestingarleið og skráðu fjárfestingu sína hjá Seðlabankanum hafa í kjölfarið mátt ráðstafa fjármunum sínum milli fjárfestinga auk þess að geta keypt gjaldeyri fyrir bæði höfuðstól og ávöxtun slíkra fjárfestinga, að fengnu samþykki seðlabankans.

Slíkt innflæði nam til að mynda 76 milljörðum króna á árinu 2015. Meira hefur bæst við síðan, bæði í skuldabréf þar til bindiskyldan var sett á og aðrar fjárfestingar. Á móti hefur svo auðvitað einhver hluti þessa fjár leitað úr landi.“