Átta þingmenn úr VG, Samfylkingu, Pírötum og Framsókn hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að stjórnmálasamtök geti boðið fram lista í Reykjavík líkt og þar væri einungis eitt kjördæmi, en ekki tvö eins og nú er. Frumvarpið er samhljóða eldra frumvarpi sem var lagt fram á seinasta þingi.

Ástæða þess að frumvarpið mælir ekki fyrir sameiningu kjördæma er sú að í 31. gr. stjórnarskrár er kveðið á um að kjördæmi skuli að lágmarki vera sex talsins, sem þau eru núna. Við sameiningu myndi þeim því fækka í fimm, sem væri í andstöðu við stjórnarskrá.

Telja engin rök vera fyrir skiptingu lengur

„Engin efnisleg rök standa lengur til þess að Reykjavík, eitt sveitarfélaga landsins, sé skipt milli tveggja kjördæma. Af því leiðir að eðlilegast væri að leggja til að kjördæmin tvö í Reykjavík yrðu sameinuð. Til að gera slíka breytingu þyrfti hins vegar að breyta stjórnarskrá þar sem kveðið er á um fjölda kjördæma," segir í greinargerð með lagafrumvarpinu.

Þá segir einnig: "Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi hefur einnig verið gagnrýnd fyrir þá sök að hún eigi sér ekki stoð í vitund borgarbúa heldur sé hún til málamynda. Enginn borgarbúi vísar til sjálfs sín sem íbúa í Reykjavíkurkjördæmi norður eða Reykjavíkurkjördæmi suður."

Í frumvarpinu er lagt til að ný grein bætist við lög um kosningu til Alþingis þar sem útskýrt er með hvaða hætti þingsætum yrði úthlutað til sameiginlegs lista sem byði fram í tveimur kjördæmum.

Úthlutun þingsæta yrði svohljóðandi:

Þegar stjórnmálasamtök bjóða fram einn sameiginlegan lista í Reykjavíkurkjördæmum suður og norður, sbr. 3. mgr. 30. gr., skal þingsætum úthlutað með eftirfarandi hætti:
1.     Þeim frambjóðanda er skipar fyrsta sæti sameiginlegs lista skal skipað í það kjördæmi þar sem listinn fær fleiri kjörna þingmenn.
2.     Fái listi jafnmarga kjörna þingmenn í báðum kjördæmum skal þeim frambjóðanda er skipar fyrsta sæti sameiginlegs lista skipað í það kjördæmi þar sem listinn fær hærra hlutfall atkvæða.
3.     Næsti maður á lista skal taka það sæti sem listinn á fyrst kost á í hinu kjördæminu. Eigi listinn ekki kost á þingmanni í því kjördæmi skal hann taka næsta sæti sem listinn á rétt á í hinu fyrra kjördæmi. Næstu frambjóðendum listans skal skipað í kjördæmi með sama hætti.