Fyrir um tíu dögum var greint frá því að 365 miðlar hefðu óskað eftir hluthafafundi í Skeljungi, en félagið er í dag stærsti hluthafinn með um 10% hlut. Töldu forsvarsmenn 365 miðla að í ljósi breytinga á hluthafahópi Skeljungs væri rétt að endurnýja umboð stjórnar.

365 miðlar eru að mestu í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Félagið seldi í október allan hlut sinn í Sýn fyrir tæpa tvo milljarða króna. Skömmu síðar keypti félagið hluti í Högum og í janúar sóttist Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, eftir því að verða kjörinn í stjórn Haga. Tilnefningarnefnd Haga tilnefndi hins vegar ekki Jón Ásgeir í stjórn.

Eftir þetta hafa 365 miðlar selt hluti í Högum og keypt í Skeljungi. Eins og áður sagði þá hefur nú verið boðað til hluthafafundar í Skeljungi þann 27. maí, en tilkynning þess efnis var send til Kauphallarinnar seint í gærkvöldi.

Komi til stjórnarkjörs þá hefur tilnefningarnefnd Skeljungs tilnefnt núverandi stjórn, sem kjörinn var á aðalfundi félagsins fyrir mánuði síðan en það eru: Ata Bærentsen , yfirlögfræðingur hjá NNIT í Danmörku, Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri hjá Reginn, Birna Ósk Einarsdóttirr, framkvæmdastjóri hjá Icelandair Group , Jens Meinhard Rasmussen , núverandi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri hjá Skanski Offshore og Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri SRX ehf.

Enginn frá 365 miðlum er tilnefndur í stjórn af tilnefningarnefnd og fyrir helgi hafði ekki borist neitt annað framboð. Enn eru rúmar þrjár vikur í að hluthafafundurinn verði haldinn og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er mjög líklegt að fleiri framboð berist. Fróðlegt verður að sjá hvort 365 miðlar, muni bjóða Jón Ásgeir, eða einhvern annan fram í stjórnina.

Í tilkynningu Skeljungs segir að tilnefningarnefndin hætti að taka við nýjum umsóknum tveimur vikum fyrir fundinn og áskilur hún sér rétt til að breyta tilnefningum allt þar til tíu dögum fyrir fund. Hafa verður í huga að tilnefningar nefndarinnar fyrir helgi litast af því að boðað er til hluthafafundar með mjög skömmum fyrirvara, sem og því að núverandi stjórn var kjörin fyrir mánuði síðan.

Tilnefningarnefnd Skeljungs er skipuð Katrínu S. Óladóttur, hjá Hagvangi, Sigurði Kára Árnasyni lögmanni og Kjartani Erni Sigurðssyni, stjórnarmanni í Skeljungi.