Leiktækjasalurinn Freddi er nú staðsettur í niðurgröfnu rými við hlið Stjórnarráðsins, í öðrum af gömlu almenningssalernunum sem kölluð voru Bankastræti 0. Þar hefur hann  verið settur upp á nýtt sem safn.

Geoffrey Þór Huntingdon-Williams er framkvæmdastjóri Fredda, en hann rekur einnig skemmtistaðina Prikið við Ingólfsstræti, Húrra, Bravó, sem og Hið íslenska pönksafn. Það er staðsett í hinu gamla almenningssalerninu við Bankastræti, hinum megin götunnar.

Geoffrey Þór segir viðbrögð ferðamanna við nýju staðsetningunni vera góð. „Þetta er sett upp að fyrirmynd pönksafnsins, en hugsað eins og lítið tímahylki og minnisvarða fyrir poppkúltúr síns tíma. Þarna erum við til dæmis með uppstillingar á ýmsum gömlum leikföngum frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar,“ segir Geoffrey Þór.

„Sýningarsalurinn er hugsaður þannig að í stað þess að fólk gangi inn og kaupi „token“ sem gangi að spilakössunum í ákveðinn tíma, eins og var, þá eru nú greiddar 1.000 krónur fyrir klukkutímann, eða minna fyrir minni tíma, og fyrir það hefur gesturinn ótakmarkað- an aðgang að kössunum. Þetta hefur gengið mjög vel, enda staðsetningin gífurlega góð og ferðamönnunum sem okkur tekst að grípa þarna niður finnst þetta upp til hópa stórkostlegt.“

Til heiðurs gamla Fredda

„Við reynum að hafa þetta svolítið litríkt þarna fyrir utan og skemmtilegt til að draga fólk að. Síðan erum við alltaf með góða fastakúnna sem kíkja á svæðið, og reyna að slá metið í kassanum sínum síðan síðast,“ segir Geoffrey Þór sem segir að sambúðin við Stjórnarráðið hafi gengið vel.

„Þaðan eru allir velkomnir frítt hjá okkur í Fredda,“ segir Geoffrey Þór, en hann segir markmiðið með rekstri safnsins ekki vera einskæra gróðavon heldur að færa fjölbreyttara líf í afþreyingu á svæðinu, auk auðvitað töluverðrar nostalgíu.

„Við vildum bjóða upp á öðruvísi aðdráttarafl, og hefur þetta til dæmis verið vinsælt hjá fólki á stefnumótum. Ég hef heyrt nokkur dæmi um vel heppnuð stefnumót sem hafa átt sér stað þarna.“

Til heiðurs gamla Fredda

Nafnið Freddi er til heiðurs samnefndum elsta leikjasal landsins, en árið 1993 var hann til að mynda með 40 spilakassa af ýmsum gerðum, sem rötuðu margir hverjir í einkasöfn þegar honum var lokað. Sumir kassanna sem nýi Freddi er með til sýnis komu þaðan.

„Vinsælustu kassarnir sem við erum með eru til dæmis Mortal Combat fyrir tvo spilara, síðan er Donkey Kong alltaf klassískur, og Mr. og Ms. Pacman. Síðan eru alltaf pinball kassar vinsælir, þar má nefna Adams Family kassinn og Barb-Wire.“