Formaður atvinnuveganefndar Alþingis, Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi er einn þeirra sem efast um fyrirhugaða færslu ferðaþjónustunnar í almenna, eða efra þrep virðisaukaskattsins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi einnig viðrað efasemdir um hækkunina.

Jafnframt telur Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar að taka þurfi mið af gagnrýni ferðaþjónustunnar á hækkunina að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

„Það er [...] augljóst að mest og verst yrðu áhrifin fyrir lítil ferðaþjónustufyrirtæki úti á landi, sem þegar eiga mjög erfitt um vik vegna hágengis krónunnar,“ segir Páll.

Mestar áhyggjur af hálfsársbili milli hækkunar og lækkunar

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi tekur undir með Nichole, en hann vill að skoðað verði betur tímasetningar hækkunarinnar.

Segist hann hafa mestar áhyggjur af því að hækkunin eigi að taka gildi sumarið 2018, en lækkun efra þrepsins komi ekki til fyrr en í ársbyrjun 2019.

Segist Nichole hafa búist við einhverri hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna en ekki svona mikilli hækkun eins og gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun.

Stjórnarandstæðingar hafa einnig lýst yfir efasemdum, en Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins telur komugjöld og gistináttagjald heppilegri til að slá á þenslu í ferðaþjónustu.