Bandaríska tímaritið Time hefur valið Jamal Khashoggi ásamt fleiri blaðamönnum sem orðið hafa fyrir barðinu á ofsóknum sem mann ársins. Blaðið er þekkt fyrir að velja á hverju ári mann ársins, en stundum hefur tímaritið látið hópa fólks verða fyrir valinu.

Í þetta sinn prýðir forsíða útgáfunnar sem er tileinkuð manni ársins, sem áður hefur prýtt menn á borð við Donald Trump, Barack Obama, Adolf Hitler og bandaríska hermanninn, sem hóp, mynd af Khashoggi.

Er yfirskrift greinarinnar um valið „Varðmenn og stríið gegn sannleikanum“, en í leiðara blaðsins er heimurinn sagður leiddur af Bandaríkjaforseta sem hafi með því að vinna með einræðisherrum og með árásum á fjölmiðla slegið hættulegan tón.

Auk Khashoggi, sem var blaðamaður, m.a. hjá Washington Post, áður en hann var myrrtur í konsúlati Sádi Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi 2. október síðastliðinn nefnir blaðið fleiri blaðamenn.

Þeir eru samkvæmt frétt Bloomberg :

  • Maria Rassa, filipískur blaðamaður hjá fréttasíðunni Rappler sem Rodrigo Duterte forseti landsins hefur gert að skotspóni
  • Starfsmenn Capitol dagblaðsins í Annapolis í Maryland, en fimm þeirra voru myrrtir á skrifstofu sinni 28. júní síðastliðinn.
  • Kyaw Soe Oo og Wa Lone, fréttamenn Reuters sem voru dæmdir í 7 ára fangelsi í Myanmar, áður Burma, eftir að hafa flutt fréttir af dauða 10 Rohingya múslima í landinu.

Donald Trump, sem var valinn maður ársins árið 2016, var einn þeirra sem var á tilnefningarlista ársins í ár, auk Vladimir Pútin Rússlandsforseta, sem og fjölskyldur flóttamanna sem höfðu verið aðskilin á landamærum Bandaríkjanna, Robert Mueller, andstæðingar byssueignar í Bandaríkjunum á meðal stúdenta og Christina Blasey Ford, sem ásakaði hæstaréttardómarann Brett Kavanaugh um kynferðislega áreitni fyrir 35 árum síðan í aðdraganda tilnefningar hans í dómstólinn.