Þann 15. september 2008, tveimur vikum fyrir yfirtöku íslenska ríkisins á Glitni, sem markaði upphaf bankahrunsins hér á landi – sótti einn stærsti og virtasti fjárfestingabanki Bandaríkjanna, Lehman Brothers, um gjaldþrotavernd undir 11. kafla bandarísku gjaldþrotalaganna. Heildareignir bankans námu þá um 691 milljarði dollara, um 63 þúsund milljörðum íslenskra króna á gengi þess tíma, eða sem nemur rúmlega 40-faldri landsframleiðslu Íslands árið 2008. Hjá bankanum störfuðu 25 þúsund manns víðs vegar um heiminn.

Gjaldþrotið var og er enn það stærsta í sögunni, rúmlega tvöfalt stærra en gjaldþrot Washington Mutual 11 dögum síðar og tæplega sjöfalt stærra en það þriðja stærsta; gjaldþrot fjarskiptafyrirtækisins WorldCom árið 2002.

Frá Bæjaralandi til Wall Street
Lehman Brothers var upprunalega stofnað sem þurrvörubúðin „H. Lehman“ af Henry Lehman, bæverskum innflytjanda í Bandaríkjunum í Alabama-ríki árið 1844. Þegar yngri bræður hans komu til landsins var nafninu breytt í Lehman Brothers, og fljótt voru þeir farnir að einblína á bómullarmarkaðinn, sem var meginstarfsemi félagsins næstu áratugina.

Stuttu fyrir aldamót fór félagið að þreifa fyrir sér á fjármálamarkaði, árið 1899 sölutryggði félagið sitt fyrsta hlutafjárútboð, og árið 1906 annaðist það – í samstarfi við Goldman, Sachs & Co – skráningu tveggja fyrirtækja í viðbót á markað. Næstu áratugina sölutryggði félagið tæplega eitt hundrað hlutafjárútboð, oft í samstarfi við Goldman Sachs.

Félagið komst í gegnum kreppuna miklu á 4. áratugnum með því að einbeita sér að sprotafyrirtækjum, og sölutryggði meðal annars skráningu fyrsta sjónvarpstækjaframleiðandans, DuMont Laboratories, og kom að fjármögnun Radio Corporation of America.

Á næstu áratugum kom félagið að fjármögnun hins ört vaxandi olíuiðnaðar og á 6. áratugnum sölutryggði það hlutafjárútboð tölvufyrirtækisins Digital Equipment Corporation.

Árið 1969 lést Robert Lehman, sonarsonur Emanuels Lehman, eins af upphaflegu stofnendunum. Lehman-ættin hafði stjórnað fyrirtækinu frá upphafi, og Robert persónulega í næstum hálfa öld, en stjórn fjölskyldunnar í fyrirtækinu dó með honum, og við tók tímabil veikrar stjórnunar á sama tíma og aðstæður í efnahagslífinu fóru versnandi.

Nýir stjórnendur
Félagið var komið í mjög erfiða stöðu árið 1972 og 1973 var Pete Peterson, fyrrverandi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bell & Howell og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Richards Nixon, ráðinn til að bjarga félaginu. Undir stjórn Petersons tók félagið yfir tvö þekkt fyrirtæki á næstu árum og tókst að snúa miklum taprekstri félagsins upp í methagnað fimm ár í röð.

Átök innan bankans urðu hins vegar til þess að Peterson var steypt af stóli árið 1983 og ári seinna var félagið komið í erfiða stöðu á ný og var keypt af American Express. Háttsettur yfirmaður innan bankans átti síðar eftir að segja andrúmsloftið innan bankans á þessu tímabili hafa einkennst af „gríðarlegri samkeppni milli starfsmanna,“.

Áratug seinna, árið 1994, seldi American Express Lehman aftur í hlutafjárútboði sem Lehman Brothers Holdings, Inc, og Richard Fuld tók við sem framkvæmdastjóri. Hann átti eftir að gegna þeirri stöðu það sem eftir var af ævi bankans.

Á kaf í fasteignalánamarkaðinn
Stuttu eftir aldamót tók Lehman yfir fimm fasteignalánafyrirtæki, þeirra á meðal fyrirtæki sem sérhæfði sig í undirmálslánum. Í fyrstu virtust kaupin hafa verið heillaskref; tekjur fjármálamarkaðsdeildar bankans jukust um 56% milli 2004 og 2006, og bankinn skilaði methagnaði á hverju ári frá 2005 til 2007, en það ár nam hann 4,2 milljörðum dollara, og tekjurnar 19,3 milljörðum.

Í febrúar 2007 náði hlutabréfaverð bankans hámarki í rúmum 86 dollurum á hlut, sem þýddi að heildarmarkaðsvirði bankans nam tæpum 60 milljörðum dollara. Stuttu seinna fór þó að halla undan fæti á húsnæðismarkaði og 14. mars, sama dag og bankinn tilkynnti methagnað á fyrsta ársfjórðungi, áttu hlutabréf í honum sinn versta dag í fimm ár.

Blikur á lofti
Á árinu 2007 sölutryggði bankinn meira af fasteignavafningum (Mortgage-backed security) en nokkur annar banki, og  fasteignavafningasafn hans náði 85 milljörðum dollara, fjórfalt á við eigið fé bankans. Eiginfjárhlutfall bankans var þar að auki aðeins rúm 3%, sem gerði hann mjög viðkvæman fyrir niðursveiflu á húsnæðismarkaði.

Þann 17. mars 2008 var svo Bear Stearns – umfangsmesti sölutryggingaraðili fasteignavafninga fyrir utan Lehman – hársbreidd frá falli, og í kjölfarið helmingaðist gengi hlutabréfa í Lehman. Tiltrú fjárfesta á bankanum jókst aðeins aftur í apríl eftir 4 milljarða dollara hlutafjáraukningu, en tók þó fljótt að dala á ný.

Þann 9. júní tilkynnti bankinn 2,8 milljarða dollara tap á öðrum ársfjórðungi, fyrsta tapið síðan bankinn öðlaðist sjálfstæði á ný árið 1994 og Fuld tók við. Bankinn tilkynnti um 6 milljarða dollara hlutafjáraukningu, sagðist eiga 45 milljarða dollara í lausafé, og aukið eiginfjárhlutfall í 4%.

Hlutabréfin í frjálsu falli
Aðgerðirnar dugðu hins vegar ekki til. Yfirstjórn bankans reyndi allt sumarið að fá fjárfesta að borðinu, en allt kom fyrir ekki. Hlutabréf bankans hrundu um 77% fyrstu vikuna í september, þrátt fyrir yfirlýsingar Fuld um áform um að selja eignastýringarhluta bankans og aðskilja fasteignahlutann frá rekstrinum.

Viðræður við Kóreska þróunarbankann um kaup á hlut í Lehman urðu að engu 9. september og það reyndist vera náðarhögg bankans. Hlutabréfin hrundu um tæpan helming og útgefnar skuldatryggingar á skuldir bankans jukust um 66%.

Stórir viðskiptavinir hófu að taka fjármagn sitt út úr bankanum, og 10. september var tilkynnt um afhroð í rekstri bankans á þriðja ársfjórðungi; 3,9 milljarða dollara tap, meðal annars vegna 5,6 milljarða dollara neikvæðs endurmats eigna. Sama dag tilkynnti lánshæfismatsfyrirtækið Moody‘s endurmat á lánshæfiseinkunn bankans og sagði sölu á meirihluta bankans nauðsynlega ef ekki ætti að koma til lækkunar. Enn féllu hlutabréfin, nú um 42%, þann 11. september.

Undir lok vikunnar átti Lehman aðeins milljarð dollara eftir í lausafé. Lokatilraun var gerð yfir helgina með breska bankanum Barclays og Bank of America til að bjarga bankanum með yfirtöku. Þær fyrirætlanir gengu ekki eftir.

Mánudaginn 15. september 2008 lýsti Lehman Brothers yfir gjaldþroti og braut þar með blað í fjármálasögu heimsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .