Í þessum mánuði eru tíu ár liðin frá því að Guðmundur Huginn Guðmundsson, skipstjóri á Huginn VE 55, tók 2 x 730 metra af 36 mm DynIce togtaugum um borð í skipið og reyndi þær í yfirborðsveiði á makríl og síld. Hampiðjan lagði til togtaugarnar og var Guðmundur Huginn með þær um borð fram á vorið 2007  en þá keypti hann heilan gang af DynIce togtaugum. 2 x 2000 metra langar.

,,Það er vert að að minnast þess að við reynum  togtaugarnar fyrst um borð  Árna Friðrikssyni RE í maímánuði 2006. Við tengdum  togtaugarnar við togvíra skipsins til að kanna hvort væri hægt að nota þær án þess að taka áður allan togvírinn af vindunum. Þetta gekk eftir  án þess að taugarnar eða vírinn skemmdust við notkunina,“ segir Guðmundur Gunnarsson, þróunarstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni. Guðmundur segir að það hafi verið að undirlagi Guðmundar Bjarnsonar, skipstjóra á Árna Friðrikssyni, og Hjálmars heitins Vilhjálmssonar fiskifræðings hjá Hafrannsóknastofnun að leyfi fékkst til að prófa taugarnar í vorleiðangri skipsins.“

Guðmundur Huginn man vel eftir þessum tímamótum.

,,Okkur líkaði strax mjög vel við togtaugarnar og léttleiki þeirra og styrkleiki kom okkur verulega á óvart. Það voru ekki allir sem höfðu trú á togtaugunum og sumir töldu það hreina firru að hengja rándýr veiðarfæri aftan í einhverja spotta og treysta þeim til að slitna ekki og hverfa með verðmætunum í djúpið,“ segir Guðmundur Huginn sem upplýsir að aðeins einu sinni á þessum tíu árum hafi togtaug slitnað hjá Huginn VE.

Sjá nánar á vef Hampiðjunnar