Tíu starfsmenn í stjórnunarstöðum hjá Isavia hafa bifreiðar til afnota vegna starfa sinna. Þetta kemur fram í svari frá Isavia til Viðskiptablaðsins en hlunnindi af umræddri bílanotkun nema tæpum 2,6 milljónum á síðasta ári. Einnig kemur fram að farmiðakaup fyrirtækisins vegna maka forstjórans, Björns Óla Haukssonar, nema tæpum 700 þúsund króna vegna fimm ferða frá árinu 2010. Fleiri ferðir hafa verið greiddar fyrir maka stjórnenda en hafa þær ferðir að sögn Friðþórs Eydals, talsmanns Isavia, verið greiddar til baka.

Á haustmánuðum fékk Viðskiptablaðið þau svör frá Isavia, þegar spurt var um ferðir maka á vegum Isavia, að ekki væri greitt fyrir maka starfsmanna. Í Kastljósi á RÚV á þriðjudagskvöldið kom fram að sömu svör hefðu borist þáttastjórnendum en síðar hefðu komið fram skýringar á þessum undantekningum. Í þættinum kom meðal annars fram að dóttir forstjóra hefði verið bókuð í tvær ferðir í tengslum við vinnuferð forstjóra. Í bæði skiptin hefði verið óskað eftir því að kostnaður vegna þeirra ferða væri dreginn af launum forstjóra. Kom í ljós í síðustu viku, í framhaldi af fyrirspurn Kastljóss, að það hafði aðeins verið gert í öðru tilvikinu. Björn Óli endurgreiddi þann kostnað sem nam 178 þúsund króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Arctic Trucks endurnýjar samninga við norska herinn.
  • Fiskeldisfyrirtækið Matorka fær mikinn stuðning frá ríkinu.
  • Allt stefnir í verkfall 11 til 13 þúsund starfsmanna SGS.
  • Ocean Diamond siglir sjö sinnum í kringum landið í sumar.
  • Sjóklæðagerðin höfðar mál vegna öfugs samruna.
  • Viðtal við framkvæmdastjóra RFF.
  • Efnahagslegur hreyfanleiki er mestur á Íslandi miðað við aðrar evrópuþjóðir.
  • Nýr fjármálastjóri Marel er í ítarlegu viðtali.
  • Huginn og muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um styrki til stjórnmálaflokka.
  • Óðinn fjallar um Al-Thani málið.
  • Þá eru í blaðinu pistlar, myndir og margt fleira.