Samfélagið á Húsavík hefur gjörbreyst undanfarin ár. Um aldamótin fór Kaupfélag Þingeyinga á hausinn og sjávarútvegurinn varð fyrir áföllum en uppgangur í ferðaþjónustu hefur bjargað miklu. Yfir sumartímann eru tíu veitingastaðir í bænum, þar eru rekin fjögur hvalaskoðunarfyrirtæki, tvö hótel og nokkur gistiheimili, Hvalasafn og Könnunarsafn.

„Samfélagið hefur breyst mikið," segir Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga og sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi. „Það eru bara tvö ár síðan sjávarútvegsfyrirtækið Vísir fór héðan og þá hurfu 60 til 70 störf á einni nóttu. Það eitt hefði getað haft mikil áhrif á lítinn bæ en sem betur fer var á sama tíma sama mikil dýnamík í túrismanum. Mikið hefur verið fjárfest í hótelum, hvalaskoðunarfyrirtækin hafa verið að eflast og nú síðast var verið taka fyrstu skóflustunguna að Sjóböðum, sem verða við vitann á Húsavíkurhöfða."

Óli segir að fyrir um það bil tuttugu árum síðan hafi Húsavík að mörgu leyti dæmigerð sjávarbyggð, þar sem atvinnulífið snerist að stórum hluta um sjávarútveg.

„Reyndar hefur alltaf verið dálítil breidd í atvinnulífinu því á Húsavík var og er enn starfandi sláturhús og kjötvinnsla og einnig nokkuð öflug opinber þjónusta fyrir sveitirnar í kring eins og skólar og sjúkrahús. Þessir hefðbundnu gömlu atvinnuvegir, sjávarútvegur og landbúnaður, voru samt mjög ráðandi hér áður."

Alþjóðlegur bragur

Þó ferðaþjónustan hafi tekið risastökk á undanförnum árum hófst þessi bylting töluvert fyrr á Húsavík að sögn Óla sem er alinn upp í bænum.

„Norðursigling byrjar með hvalaskoðun upp úr 1995. Ég held að það sé hægt að segja með nokkuð góðri samvisku að hvalaskoðun, sem einhver alvöru atvinnuvegur, verður til á Húsavík. Ég er uppalinn á Húsavík en var um það bil áratug í námi og vinnu annars staðar, aðallega á höfuðborgarsvæðinu, en flutti síðan aftur heim um 2004. Þá sá ég strax töluverðar breytingar á samfélaginu og síðustu ár hefur það breyst enn meira. Í dag er býsna alþjóðlegur bragur á þessum litla bæ. Innviðirnir hafa breyst mikið með tilkomu ferðaþjónustunnar. Sem dæmi þá hefur gististöðum fjölgað mikið og þá eru um tíu veitingastaðir reknir í bænum yfir sumartímann og þar af fjórir til fimm allt árið um kring."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .