Það hefur vart farið fram hjá neinum að internetið er orðið mikilvægur og beittur vettvangur fyrir samfélagsumræðu og birtingu hvers konar upplýsinga og gagna. Hýsingaraðilar gegna mikilvægu hlutverki í þeim efnum með því að veita þá þjónustu að hýsa efni á vefþjónum sínum. Hagsmunir tengdir tjáningarfrelsi annars vegar og friðhelgi persónu, æru og einkalífs hins vegar geta vegist á í tengslum við umræður og gögn á internetinu.

Samkvæmt íslenskum lögum hvílir almennt lítil ábyrgð á hýsingaraðilum á þeim gögnum þeir hýsa. Að sögn Ragnars Tómasar Árnasonar, hæstaréttarlögmanns hjá LOGOS, veita alþjóðleg lög, s.s. tilskipanir sem gilda á EES svæðinu og mannréttindasáttmáli Evrópu, svigrúm til þess að leggja mun víðtækari ábyrgð á hýsingaraðila en íslensk lög gera í dag. Hýsingaraðilar þurfa samkvæmt lögunum almennt ekki að óttast ábyrgð á gögnum sem þeir hýsa fyrr en þeir fá vitneskju um lögbann eða dóm um brottfellingu gagnanna eða hindrun aðgangs að þeim. Ragnar Tómas leggur þó ekki til að lögunum verði breytt heldur leggur áherslu á að hýsingaraðilar stundi í auknum mæli virkt sjálfseftirlit til að bregðast við tilteknum brotum gegn persónu, æru eða einkalífi, og fjarlægi efni af vefþjónum sínum þegar hann fær vitneskju um að það feli í sér brot af þessu tagi.

Augljós og alvarleg brot

„Það hlutverk sem hýsingaraðilum er ætlað í slíku sjálfseftirliti er náttúrlega vandasamt, en þau tilvik sem ég er einkum að tala um eru augljós og alvarleg brot, sem auk þess ógna hagsmunum sem skipta talsverðu máli,“ segir Ragnar Tómas. „Sú spurning hvort við viljum fela hýsingaraðilum slíkt hlutverk, sem jafna má við nokkurs konar ritskoðun á vegum þeirra, á alveg rétt á sér. Íslendingar kusu að fara sömu leið og Bandaríkjamenn og standa vörð um víðtækt tjáningarfrelsi með því að leggja mjög takmarkaða ábyrgð á hýsingaraðila vegna efnis sem þeir hýsa. Í ýmsum öðrum löndum hefur hins vegar verið lögð meiri áhersla á hagsmuni sem tengjast persónu, æru og einkalífi með því að mæla fyrir um víðtækari ábyrgð. Í tilskipun um rafræn viðskipti eru hýsingaraðilar hvattir einnig til að setja sér siðareglur um hýsingu. Hafa verður í huga að þegar um brot af því tagi er að ræða sem ég er að tala um getur skipt öllu máli að brugðist sé hratt við.“

Ragnar Tómas bendir á að ókosturinn við víðtæka ábyrgð hýsingaraðila felist meðal annars í því að þeir myndu freistast til að taka of mikið efni niður til að forðast refsivönd laganna. Sjálfseftirlit væri nokkurs konar málamiðlun. „Tjáningarfrelsinu er ekki ógnað um of þótt gerðar séu kröfur til hýsingaraðila um heilbrigt sjálfseftirlit en hýsingaraðilar og samtök þeirra þurfa þá að setja sér hlutlægar siðareglur og viðmið til að fara eftir. Vissulega er hætta á því að hýsingaraðilar bregðist ranglega við, jafnvel á grundvelli óeðlilegra sjónarmiða, og fjarlægi efni sem hefði átt að standa. Það er þó hætta sem við búum hvort sem er við, a.m.k. þegar hýsingaraðilar eru með almennan áskilnað í skilmálum við þjónustuþega um að fjarlægja efni. Ef viðmiðin vegna sjálfseftirlits eru við augljós og alvarleg brot þyrftu hýsingaraðilar í starfsemi sinni oft að glíma við þá spurningu hvenær mál sé svo snúið eða óljóst að þeir ættu að vísa því til dómstóla og sýslumanna og segja: „við viljum ekki taka afstöðu.“ Ef hýsingaraðilar stunda hins vegar ekki heilbrigt sjálfseftirlit og markaðssetja sig jafnvel þannig að þeir taki ekkert efni niður nema fyrir liggi lögbann eða dómur, er hætt við að starfsemi þeirra geti orðið skálkaskjól fyrir augljóslega ólöglega og siðlausa háttsemi.

Hýsingaraðilar sem stunda sjálfseftirlit þurfa að hafa ákveðna stefnu, þ.e. siðareglur, og síðan viðskiptaskilmála gagnvart viðskiptavinum sem gefa hýsingaraðilunum rétt til að taka niður efni sem þeir telja að fari gegn þessum siðareglum. Ef þeir gera það, og hafa sjálfdæmi samkvæmt skilmálum, þá þurfa þeir ekki að óttast ábyrgð gagnvart viðskiptavinum. Þeir yrðu ekki heldur með refsivönd hangandi yfir sér gagnvart lögum og ábyrgð. En ef einstakir hýsingaraðilar færu að ganga of langt í að fjarlægja efni þá er líklegt að viðskiptavinum þeirra myndi fækka. Markaðurinn myndi þannig refsa þeim fyrir það.“

Nánar er rætt við Ragnar Tómas um sjálfseftirlit hýsingaraðila, og í hvaða tilvikum hýsingaraðilar ættu að fjarlægja efni, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu með að ýta á Innskráning.