Samkeppniseftirlitið hefur metið tjón almennings vegna aðstæðna á eldsneytismarkaði á bilinu 4 til 4,5 milljarða króna á árinu 2014. Eftirlitið metur það einnig sem svo að álagning hafi verið óeðlilega há sem nemur 18 krónum á hvern lítra bensíns og 20 krónum á hvern lítra dísilolíu á árinu 2012.

Óhagkvæmni í fjölda eldsneytisstöðva

Á undanförnum áratugum hefur eldsneytisstöðvum í Reykjavík fjölgað umfram íbúafjölgun. Eldsneytisstöðvum á landinu hefur einnig fjölgað um því sem nemur rúmlega 8% á árabilinu 2005-2014.

Þróunin í nágrannalöndunum hefur verið þveröfug þar sem eldsneytisstöðvum hefur fækkað mikið á undanförnum áratugum vegna aukinnar samkeppni. Til dæmis fækkaði eldsneytisstöðvum í Bretlandi um 75% (20)% á milli áranna 1970 til 2012 (2004 til 2012).

Há álagning hefur gert olíufélögunum kleift að halda úti fleiri eldsneytisstöðvum en ella. Ef álagning myndi lækka mætti gera ráð fyrir því að óhagkvæmum stöðvum yrði lokað.

Eftirlitið bendir á að í kjölfar dvínandi eftirspurnar bifreiðaeldsneytis hér á landi og erfiðleika fyrirtækjanna í kjölfar hrunsins hefði mátt búast við því að á virkum markaði ykist samkeppni um viðskipti sem myndi leiða til lægri álagningar.

Að öllu öðru óbreyttu hefði þetta leitt til þess að óhagkvæmum stöðvum yrði lokað og stöðvum fækkað. Fjölgun stöðva á undanförnum árum auk mikils fjölda þeirra í samanburði við önnur lönd virðist benda til þess að samkeppni á milli íslensku olíufélaganna sé skert og megi rekja til samhæfðrar hegðunar þeirra.