Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra segir að fjárhagslegt tjón Íbúðalánasjóðs yrði um 16 milljarðar króna ef uppgreiðslugjöld útistandandi lána yrðu gefin eftir.

Er þar miðað við næstu fimm árin að því er Morgunblaðið greinir frá en þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar þingmanns Flokks fólksins.

Ógjaldfallin uppgreiðslulán á lánum til neytenda eru 5,5 milljarðar króna vegna útlána sem samtals eru kröfur að andvirði 95 milljarða króna. Hins vegar yrði beint og óbeint tjón áðurnefndar 16 milljarðar króna því sjóðurinn gæti þá ekki ávaxtað féð líkt og útreikningar gera ráð fyrir.

Ráðherra kvaðst ekki hafa sko að að afnema gjöldin og segir vandséð hvernig það yrði gert því um er að ræða skilmála lánasamninga . Lántakendur gengust undir skilmálana gegn því að lán þeirra bæru lægri vexti en lán án slíkra gjalda.

„Með því að afnema uppgreiðslugjöld af þegar veittum lánum væri því ekki jafnræði milli þeirra lántakenda sem tóku lán á sama tíma en með ólíkum skilmálum og vaxtastigi ,“ segir ráðherra.

„Þá er ljóst að einn af stærstu áhættuþáttum í rekstri Íbúðalánasjóðs eru uppgreiðslur lána og með því að afnema uppgreiðslugjöldin myndi sú áhætta aukast og líklegra yrði að ríkissjóður yrði að leggja sjóðnum til viðbótarfjármagn.“

Byrjað var að veita slík lán árið 2005 þar til ný lög um neytendalán tóku gildi árið 2013. Hafa 7.533 slík lán ekki verið greidd upp, en 6.379 lán hafa hins vegar verið greidd upp í heildina. Innheimti sjóðurinn 960 milljónir króna á síðasta ári í uppgreiðslugjald.