Nafni Greiðslumiðlunar - VISA Íslands hefur verið breytt í Valitor, samfara áherslu- og skipulagsbreytingum hjá fyrirtækinu. Ástæða breytinganna er vaxandi starfsemi erlendis og aukin breidd í þjónustu fyrirtækisins segir í tilkynningu.


Þar kemur fram að það sé mat forvígismanna Valitor að unnt sé að sækja miklar tekjur til útlanda á sviði greiðslukorta-starfsemi, en þar er grunnurinn veigamikil þekking Íslendinga og háþróuð tækni. Fyrirtækið hefur nú þegar hluta tekna sinna af þjónustu við erlenda aðila, einkum vegna netverslunar.


Engin breyting verður á þjónustu gagnvart korthöfum VISA hér á landi á þessum tímamótum. Valitor miðlar sem fyrr greiðslum milli söluaðila, korthafa, banka og sparisjóða og tryggir m.a. að rétt upphæð sé skuldfærð hjá korthöfum.


Á Íslandi eru bankar og sparisjóðir útgefendur og ábyrgðaraðilar greiðslukorta. Valitor kemur að vinnslu og sérhæfðri þjónustu við þá á sviði kortaumsýslu og er jafnframt samningsaðili við kaupmenn sem svonefndur færsluhirðir. Færslukerfi Valitor tengist alþjóðlegu greiðslumiðlunarkerfi VISA er tengir saman yfir milljarð korthafa, rúmlega 20 milljónir söluaðila og yfir 21 þúsund aðildarbanka víðs vegar um heim. Vert er að benda á að notkun greiðslukorta er óvíða jafnmikil og hérlendis. Þannig eru skv. athugun um 80% af einkaneyslu greidd með kortum hér á landi, en t.d. í Bretlandi er það hlutfall undir 30%.


Greiðslukortamarkaðurinn hefur vaxið óðfluga á tiltölulega skömmum tíma úr því að vera til öryggis og þæginda fyrir fáeina, sem þurftu mikið að ferðast, í það að verða stór hluti af daglegu lífi alls þess fólks sem hefur aðgang að þessari tækni. Gagnger breyting er að verða á umhverfi greiðslukorta þar sem landamæri hverfa og horft er til betri nýtingar og stærðarhagkvæmni. Í því samhengi á sér stað mikil samþjöppun á alþjóðlegum markaði, einkum í vinnslu og færsluhirðingu, og öflugari fyrirtæki líta dagsins ljós.