Í viðskiptum morgunsins í kauphöll Nasdaq Iceland hefur TM hækkað umtalsvert, eða um 3,76% í 23 milljóna viðskiptum.

Koma þær hækkanir í kjölfar þess að félagið skilaði 1,2 milljarða hagnaði á öðrum ársfjórðungi ársins, eins og kom fram í uppgjöri sem það birti í gær.

Fasteignafélög hækka

Jafnframt hafa fasteignafélögin haldið áfram að hækka, en miklar hækkanir voru á mörkuðum í gær í kjölfar stýrivaxtaákvörðunar Seðlabankans.

Hafa bréf í Eik hækkað um 1,55% frá því í morgun, í 193 milljóna króna viðskiptum, hlutabréf í Reginn hafa hækkað um 1,66%  í 54 milljóna króna viðskiptum og í bréf í Reitum hafa hækkað um 1,04% í 110 milljón króna viðskiptum.

Úrvalsvísitalan lækkar

Í viðskiptum morgunsins hækkuðu einnig bréf í Nýherja um 3,59% sem skilaði 111 milljóna hagnaði á fyrsta helmingi ársins. Það var þó í litlum viðskiptum, fyrir um 7 milljónir króna.

Hlutabréf i Icelandair hafa lækkað um 2,53% í 177 milljóna viðskiptum og hlutabréf í Marel hafa lækkað um 1,56% í 76 milljóna króna viðskiptum. Úrvalsvísitalan sjálf hefur lækkað um 1,03%.