Hagnaður TM nam í fyrra rétt tæpum 2,6 milljörðum króna, sem er 8% lækkun frá árinu 2015. Eigin iðgjöld jukust um 1.425 milljónir á milli ára og námu í fyrra 14.060 milljónum, en fjárfestingartekjur drógust saman um 22% á sama tíma. Námu þær í fyrra 3.178 milljónum króna. Í tilkynningu segir að fjárfestingartekjurnar jafngildi 13,0% ávöxtun fjárfestinga.

Samsett hlutfall TM var í fyrra 97%, en var árið 2015 103%. Í tilkynningu segir að árið 2015 hafi hlutfallið farið yfir 100% í fyrsta sinn frá árinu 2009. Það sé þekkt að með auknum umsvifum og hita í hagkerfinu hækki tjónatíðni og ljóst að bregðast hafi þurft við þeirri þróun í fyrra. Á seinni hluta ársins 2015 hafi m.a. verið gripið til skipulagsbreytinga í því skyni að auka enn fagleg vinnubrögð í áhættuverðlagningu. Afrakstur þess og annarra aðgerða sé viðsnúningur í framlegð af vátryggingastarfsemi upp á 836 milljónir króna.

Haft er eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, að á heildina litið sé hann ánægður með niðurstöðu ársins, bæði hvað varði afkomu af vátryggingastarfsemi og ávöxtun fjárfestingaeigna. Þrátt fyrir tjónaþungan fjórða ársfjórðung hafi fyrirtækið náð að skila samsettu hlutfalli í samræmi við upphaflega áætlun ársins. Arðsemi eigin fjár, sem nam 22,4%, hafi verið yfir langtímamarkmiði félagsins sjötta árið í röð.