Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar á fjórða ársfjórðungi ársins 2017 var rúmlega milljarður, eða 1.031 milljón króna sem er tæplega 68% aukning milli ára fyrir sama tímabil. Hagnaður félagsins fyrir árið í heild nam 3.123 milljónum en árið 2016 nam hagnaðurinn 2.597 milljónum króna, sem gerir um fimmtungsaukningu hagnaðar á milli ára.

Bréf félagsins hafa hækkað um 3,16% í 122 milljóna viðskiptum í kauphöllinni í dag.

Gerir stjórn félagsins tillögu til aðalfundar sem haldinn verður 15. mars næstkomandi um 1.500 milljóna króna arðgreiðslu, auk allt að milljarðs króna heimild til kaupa á eigin bréfum. Sigurður Viðarsson, forstjóri TM segir afkomu ársins 2017 vera mjög góð. „Enn eitt árið skilar félagið framúrskarandi arðsemi á eigin fé eða ríflega 24%,“ segir Sigurður.

„Ávöxtun fjárfestingaeigna ber uppi afkomu ársins en þó var ánægjulegt að sjá þróunina í vátryggingastarfseminni á fjórða ársfjórðungi sem skilaði jákvæðri framlegð á fjórðungnum og fyrir árið í heild. Sé litið framhjá neikvæðri þróun eldri tjónsára á fyrri árshelmingi 2017 var afkoma af tryggingarekstri árið 2017 mjög góð. Í spá félagsins fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir betra jafnvægi milli vátrygginga- og fjármálarekstrar."

Samsett hlutfall útborgana sem hlutfall af iðgjöldum hækkar

Á árinu 2017 var samsett hlutfall TM 99,4% og hækkar milli ára, en samsett hlutfall ársins 2016 var 97,0%. Eigin iðgjöld jukust um 6,6% en ná ekki að halda í við hækkun tjónakostnaðar sem var 10,8% milli ára.

Verri afkoma af vátryggingastarfsemi skýrist einkum af hærra tjónshlutfalli í eignatryggingum, skipatryggingum og ábyrgðartryggingum. Afkoma slysatrygginga batnar nokkuð milli ára en er ennþá óviðunandi. Hagnaður TM á árinu 2017 var 3.123 m.kr. eftir skatta og framlegð af vátryggingastafsemi 97 m.kr.

Kostnaðarhlutfall félagsins á árinu var 20,1%. Langtímamarkmið TM er að ná kostnaðarhlutfalli undir 20% og gera spár ráð fyrir að það markmið náist á árinu 2018. Fjárfestingatekjur námu 1.115 m.kr. á fjórða ársfjórðungi sem jafngildir 4,0% ávöxtun. Fjárfestingatekjur námu 3.750 m.kr. á árinu 2017. Það jafngildir 14,9% ávöxtun fjárfestinga en til samanburðar hækkaði markaðsvísitala Gamma um 7,7% á árinu.

Ávöxtun fjáreigna TM var því vel yfir meðalávöxtun síðastliðinna fimm ára sem er 12,7%. Góða ávöxtun á árinu 2017 má fyrst og fremst rekja til óskráðra hlutabréfa, skráðra hlutabréfa og sjóða og annarra verðbréfa sem skýra um 68% af fjárfestingatekjum ársins segir í fréttatilkynningu félagsins.