TM Software hefur keypt hugbúnaðarlausn Dacoda fyrir bílaleigur að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Markmið TM Software með kaupunum er að efla framboð félagsins á eigin lausnum fyrir bílaleigur og aðila á sviði ferðaþjónustu.

Lausn Dacoda heldur utan um flota, framboð, verð og bókanir á bílaleigubílum. TM Software mun taka við þróun, viðhaldi og þjónustu við bílaleigukerfið en Dacoda mun draga sig út úr allri þróun bílaleigukerfa.

Bílaleigulausn þróuð enn frekar með kaupunum

„TM Software hefur þróað eigin bílaleigulausn, Driver Guide, fyrir flota og leiðsögukerfi bílaleiga og viðskiptavini þess,“ segir Soffía Þórðardóttir forstöðumaður ferðalausna TM Software. „Fyrirtækið sér mikil tækifæri og samleið með lausn Dacoda og Driver Guide og stefnir á að efla þróun bílaleigukerfisins enn frekar til að mæta sem best þörfum núverandi og framtíðarviðskiptavina.“

Hákon Sigurhansson framkvæmdastjóri TM Software segir þjónustu við aðila á ferðasviði vera ört vaxandi hluti af starfsemi fyrirtækisins.

„Á rúmlega 30 ára vegferð TM Software hefur félagið verið leiðandi í hugbúnaðarþróun og vinnur í dag fyrir mörg af öflugustu fyrirtækjum landsins,“ segir Hákon. „Kaupin á lausn Dacoda eru í takt við stefnu TM Software og munu efla lausnaframboð félagsins til framtíðar.“