Hjálmar Gíslason stofnaði sprotafyrirtækið GRID í haust. Hugmyndin er í stuttu máli sú að hjálpa fólki að taka það sem það kann að gera í töflureiknum og miðla gögnunum á fallegan og einfaldan hátt, en félagið hefur þegar fengið milljón dollara í fjármögnun.

„Það sem ég áttaði mig á hjá DataMarket og Qlik, þar sem við vorum að búa til tól sem áttu að vera aðgengileg fyrir stjórnendur og aðra í viðskiptalífinu til þess að gera sínar eigin greiningar, var að þetta voru ekki nógu aðgengileg tól. Eina tólið sem virtist vera nógu aðgengilegt, og allir voru að nota, var Excel.“

Hugmyndin snýr bæði að söfnun og framsetningu gagna, en Hjálmar segir aðaláhersluatriðið vera framsetninguna. „Framsetningin fer frá einum til margra, á meðan hópur þeirra sem safna gögnum og vinna úr þeim er yfirleitt mun smærri. Hugmyndin er að við gefum þér tól ofan á töflureikninn, sem gerir þér kleift að búa til viðmót sem notendur fá og geta fyllt út. Þeir þurfa að vera skráðir inn og þú getur stjórnað algerlega aðgengi að skjalinu. Upplýsingarnar sem þeir fylla inn flæða síðan bara áfram í Excel-skjalið þitt.“

„Aðalmálið er hins vegar tól til að smíða fallegt viðmót ofan á Excel-skjöl, og keyra það í öruggu og miðlægu umhverfi,“ segir Hjálmar, og útskýrir að það geti sparað gríðarlega mikla vinnu og flækjustig að starfsmaður geti séð um gagnavinnslu og framsetningu sjálfur, frekar en tæknideild.

„Það sem við erum að gera er að setja í hendurnar á fólki sem kann á töflureikna tól sem tekur þá þekkingu og gerir hana miklu verðmætari, gefur því ákveðna ofurhetjukrafta til að gera hluti sem það vissi aldrei að það gæti gert.“

Hjálmar leggur áherslu á að hugmyndin sé ekki að leysa töflureikna af hólmi eða endurskapa þá í nýrri mynd. Excel-skjalið verði áfram grundvöllur gagnavinnslu. GRID snúist um að taka það sem fólk kann nú þegar í núverandi töflureiknum og gefa því viðbótarmöguleika ofan á það. „Við erum að reyna að taka töflureikna á næsta stig. Það er hins vegar heill kirkjugarður af sprotafyrirtækjum sem hafa horft á þessi vandamál sem ég er að lýsa, séð tækifærin í lausn þeirra og ákveðið að búa til nýjan töflureikni frá grunni eða eitthvað sem er ekki töflureiknir en á að gera töflureikna óþarfa. Það sem við erum að gera er að mæta fólki þar sem það er og þar sem því líður vel, í tólinu sem því finnst best að vinna með tölur og gögn í í dag, en gefa því nýja möguleika. Excel er inngróið í viðskiptaheiminn,“ segir hann og líkir Google Sheets við Duplo-kubba, í samanburði við Excel, sem sé þá tækni-legó.

Mottó fyrirtækisins er „Spreadsheets run the world – and we run spreadsheets“, sem útfærist á íslensku sem „Töflureiknar stjórna heiminum – og við stjórnum töflureiknum“. Töflureiknar eru hugsanlega ekki það sem fyrst kemur upp í huga flestra þegar þeir leiða hugann að heimsyfirráðum, en Hjálmar útskýrir að flestar stórar ákvarðanir séu teknar með hliðsjón af útreikningum í Excel eða öðrum töflureikni. „Mjög mikið af áætlanagerð og ákvarðanatöku í viðskiptum og stjórnsýslu á sér stað eða er grundvallað á einhverju sem er reiknað út í töflureiknum. Sumum finnst það svolítið ferkantað, og það er ekki eins og það sé hægt að mæla alla hluti tölulega. Það er hins vegar miklu betra að vita til þess að það sé verið að reyna að taka ákvarðanir byggðar á bestu fáanlegu gögnum og út frá bestu fáanlegu rökum heldur en að þær séu teknar á tilfinningunum einum saman. Tilfinningarnar þurfa alveg að spila inn í líka, en það er ekki hægt að gera það bara á þeim,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .