Verðhjöðnun er á Íslandi ef horft er framhjá hækkun húsnæðisverðs. Undanfarna tólf mánuði hefur verðbólga án húsnæðis ekki einu sinni verið jákvæð. Hún hefur verið neikvæð í alls tíu mánuði og hefur hún verið neikvæð nú í átta mánuði í röð. Bæði í júní og júlí lækkaði almennt verðlag á vöru og þjónustu um 3,1% milli ára, að húsnæði undanskildu, en svo mikil hefur verðhjöðnun ekki mælst á þennan kvarða í rúmlega hálfa öld, eða frá því í byrjun árs 1960.

Almennt hefur verðbólga í landinu, mæld sem tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs, verið stöðug undanfarin þrjú ár. Í 42 mánuði samfellt hefur verðbólgan verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Það hefur ekki gerst frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp í mars árið 2001. Að meðaltali hefur verðbólga verið tæplega 1,8% frá því í febrúar árið 2014 og var hún við meðaltalið í júlímælingu vísitölu neysluverðs. Á sama tíma og verðbólga hefur verið lág og stöðug hefur hagvöxtur verið kröftugur. Verðstöðugleiki undanfarinna ára á sér fá fordæmi í íslenskri hagsögu, en það tímabil sem kemst næst því í fersku minni er miðbik fastgengistímans árin 1989 til 2001.

Það sem heldur uppi verðbólgu umfram verðþróun á annarri vöru og þjónustu er hækkun húsnæðisverðs, sem stafar af framboðsskorti á markaðnum. Undanfarna tólf mánuði hefur húsnæðisverð hækkað um rúmlega 24% á landinu öllu, en húsnæði hefur mest vægi í vísitölu neysluverðs (34% miðað við reiknaða húsaleigu). Frá því í júlí árið 2013 hefur munurinn á milli verðbólgu með og án húsnæðis aukist úr 0,03% í 4,9%. Munurinn hefur aldrei mælst meiri en nú. Vert er þó að benda á að í júlímælingum Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs gætti að vanda áhrifa af sumarútsölum.

Umræða um verðhjöðnun og verðstöðugleika er í raun framandi og sérstakt fyrirbæri fyrir Íslendinga sem hafa áratugum saman glímt við verðbólgu og óðaverðbólgu. Spurningar vakna óhjákvæmilega um tildrög þeirrar togstreitu sem greina má í verðlagi á Íslandi um þessar mundir, hvaða áhrif hún hefur á hagkerfið og hvort eitthvað gefi til kynna að verðbólgudraugurinn sé að fara að herja á veski landsmanna á næstunni.

Sterk króna flytur inn verðhjöðnun

Verðhjöðnunin sem nú mælist á Íslandi utan húsnæðis er einkum til komin vegna gengisstyrkingar krónunnar, að sögn Arnórs Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóra.

„Þessi verðhjöðnun skýrist fyrst og fremst af gengisstyrkingu krónunnar undanfarna mánuði. Á síðustu tólf mánuðum hefur krónan styrkst um rúmlega 12% og innfluttar vörur lækkað um 8% í verði. Verðlag er tiltölulega stöðugt erlendis, sem þýðir að við erum ekki að flytja inn neina verðbólgu. Þá hafa ýmsir aðrir þættir haft áhrif til lækkunar, svo sem lækkun á heimsmarkaðsverði á eldsneyti, en einnig aukin samkeppni í verslun með tilkomu erlendra verslunarkeðja og vaxandi viðskipta við alþjóðlegar netverslanir, þó að samkeppnisáhrifin hafi ekki verið metin sérstaklega,“ segir Arnór.

Sem dæmi um það sem hefur lækkað í verði undanfarna mánuði má nefna bensín (4,3%), dagvöru (4,7%), flugfargjöld (7,6%), lyf (9,8%), húsgögn og heimilisbúnað (10,2%), bíla (11,2%), varahluti ökutækja (11,9%), raftæki (12,5%), sjónvörp, útvörp og myndspilara (25,8%) og farsímaþjónustu (37,1%).

Arnór segir talsverðu óvissu vera til staðar um það hvort að verðhjöðnunin haldi áfram. Má þar nefna að húsnæðismarkaðurinn gæti verið að nálgast jafnvægi, krónan gæti verið að gefa eftir og svo eiga áhrifin af aukinni samkeppni einnig eftir að koma fram. „Það eru að takast á sterk öfl sem togast á sitt í hvora áttina, annars vegar til aukinnar verðbólgu og hins vegar í átt að verðhjöðnun. Það er óvíst hvort aflið verður sterkara,“ segir Arnór

Ekkert áhyggjuefni

Þegar almennt verðlag lækkar eykst verðgildi hverrar krónu og því einnig kaupmáttur. Hagfræðingar þræta þó gjarnan um afleiðingar verðhjöðnunar og það hvort hún sé eftirspurnarletjandi, eftirspurnarörvandi eða breyti einfaldlega samsetningu eftirspurnar með tilliti til neysluvara og fjárfestingarvara. Arnór telur að Ísland sé ekki að þjást fyrir þá verðhjöðnun sem nú mælist utan húsnæðis, þó að verðhjöðnun í sjálfu sér sé ekki í samræmi við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans.

„Land sem býr við um 7% hagvöxt er ekki að þjást fyrir verðhjöðnun. Almennt er verðhjöðnun á Íslandi ekkert sérstakt áhyggjuefni. Íslenska hagkerfið er opið og útflutningsdrifið, sem dregur úr neikvæðum áhrifum verðhjöðnunar. Í verðhjöðnun hækkar raunvirði skulda, en hættan sem stafar af því er miklu minni á Íslandi vegna verðtryggingarinnar, auk þess sem kaupmáttur launa er í hæstu hæðum. En auðvitað er verðhjöðnun ekki í samræmi við okkar markmið um verðstöðugleika. Við reynum að haga peningastefnunni þannig að verð á vöru og þjónustu hækki um 2,5% að jafnaði til að ná fram verðstöðugleika í vaxandi hagkerfi,“ segir Arnór.

Spurður hvort verðstöðugleiki undanfarinna þriggja ára sé peningastefnunni að þakka segir Arnór peningastefnuna hafa átt stóran þátt í því.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .