Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís og formaður Samtaka iðnaðarins, rekur ísgerðina ásamt móður sinni, systkinum og föðurbróður.

Segðu mér í stuttu máli frá þér og þínum bakgrunni.

„Ég er alin upp á þessari þúfu en vann nú þrátt fyrir það stundum hjá öðrum þegar ég var yngri. Ég grínast með það í dag að við systkinin verðum að hanga hér eins og hundar á roði því það myndi enginn annar ráða okkur í vinnu. Við störfum hérna saman ég og bróðir minn, hann er framkvæmdarstjóri. Ég er sjálf stúdent frá FSu á Selfossi og fór síðan beint í framhaldinu að vinna hér. Ég var því að vinna hér þegar faðir okkar verð- ur bráðkvaddur. Ég tók í kjölfarið við fyrirtækinu og rak það um tíma. Það var eins og gefur að skilja mikil áskorun og kannski einn mesti skóli sem ég hef farið í enda var ég aðeins 23 ára og allt í einu komin með 50 manns í vinnu á einu augabragði,“ segir Guðrún.

Raunverulegt fjölskyldufyrirtæki

„Í framhaldinu flyt ég til Þýskalands og bjó þar í fimm ár. Þegar ég kom svo heim ákvað ég að fara í háskólann og lík þaðan prófi í mannfræði sem var eitthvað sem mig hafði alltaf dreymt um að læra. Foreldrum mínum fannst þetta námsval mitt mjög ópraktískt og höfðu nú aldrei heyrt aðra eins vitleysu. En svo er það þannig að þegar maður lendir í áföllum þá endurskoðar maður oft líf sitt. Ég man þegar pabbi dó hvað ég skynjaði sterkt hvað lífið er hverfult og að við eigum ekki morgundaginn vísan. Sú upplifun átti sinn þátt í því að ég ákvað að drífa mig í mannfræðina. Lífið er svo stutt og mig langaði bara að gera það sem ég hafði gaman af. Á vissan hátt er það gjöf að hafa öðlast þá reynslu svona ung.“

„Ég sá svo ekki eftir því að hafa valið þetta nám sem mér fannst mjög skemmtilegt enda finnst mér það nýtast mér á mörgum sviðum, ekki síst varðandi markaðsmálin. Mannfræði gengur út á það að skilja hegðun fólks og það sama má oft segja um markaðsmálin þar sem maður er alltaf að lesa í hegðun og reyna að sjá hana fyrir. Eftir að náminu lauk fór ég að vinna hér við markaðsmál og hef séð um þau og vöruþróun síðan. Þegar pabbi féll frá þá breyttist nokkuð eigendahópurinn og stjórn fyrirtækisins. Mamma tók við stjórninni ásamt okkur systrum. Valdimar bróðir minn starfar hins vegar sem framkvæmdastjóri ásamt föðurbróður okkar. Við systkinin erum því öll eigendur að fyrirtækinu, ásamt mömmu og öðrum föðurbróður okkar.“

Þannig að það má með sanni segja að Kjörís sé raunverulegt fjölskyldufyrirtæki?

„Já, með öllu því sem það innifelur. Það eru gríðarleg forréttindi að fá að vinna með sínum nánustu en það verður líka allt að vera gott á milli fólks svo það gangi vel. Góð samskipti og kærleikur og þetta er allt til staðar hér. Okkur systkinunum gengur mjög vel að vinna saman, við eigum skap saman og þykir mjög vænt hvort um annað. Okkur þykir gott að vera saman og þegar okkur greinir á þá gerist það aldrei með látum.“

Viðtalið við Guðrúnu má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu á blaðinu undir Tölublöð.