Vefsíðan Glassdoor Inc. hefur gefið út árlega skýrslu yfir bestu vinnustaðina . Mat Glassdoor byggir á umsögn starfsmanna fyrirtækjanna sem senda inn nafnlaust mat á fyrirtækinu sem að þau starfa fyrir. Frá þessu er greint í frétt Bloomberg .

Ráðgjafafyrirtækið Bain & Company er efst á blaði á lista Glassdoor. Fyrirtækið hefur verið í einu af efstu fimm sætunum frá því að byrjað var að taka saman lista yfir bestu vinnustaðina, og þar af verið efst þrisvar. Starfsmenn fyrirtækisins vísa til góðra launa, góðra fríðinda og góðs vinnuanda að sögn Scott Dobroski, sem vinnur fyrir Glassdoor.

Airbnb var í efsta sæti listans árið 2015 en fellur niður í 35 sæti á þessu, þetta vakti athygli forsvarsmanna samantektarinnar. Að sögn starfsmanna Airbnb hefur mikill vöxtur fyrirtækisins haft neikvæð áhrif á vinnuanda. Þó stendur fyrirtækið sig nokkuð vel sem vinnustaður.

Tæknifyrirtæki á borð við Facebook, Google og Linkedin eru einnig ofarlega á lista, en í efstu sætum listans má einnig finna skyndibitakeðjuna In-N-Out Burger. Einnig er Church of Jesus Christ of Latter Day Saints, eða Mórmónakirkjan ofarlega á lista Glassroom, eða í 19. sæti. Costco, sem hefur bráðlega starfsemi á Íslandi er í 34. sæti listans og Ikea nær einnig sæti á listanum.