Halldór Örn Jónsson, framkvæmdastjóri ZO-ON, segir fyrirtækið hafa ráðist í talsverðar breytingar á hönnun og framleiðslu ZO-ON fyrir nokkrum árum síðan, sem og endurmótun á ZO-ON vörumerkinu. Segir hann að breytingarnar séu farnar að skila árangri.

Fyrir nokkrum árum síðan var ráðist í talsverðar breytingar á stefnu ZO-ON og vörumerkinu. Getur þú sagt mér aðeins nánar frá því verkefni?

„Fyrir fjórum síðan fengum við inn nýtt hönnunarteymi. Öll hönnunin hjá okkur breyttist til hins betra og framleiðslan var tekin í gegn. Við fengum Martti aftur til okkar eftir um 15 ár, sem yfirhönnuð, en hann var fyrsti hönnuður fyrirtækisins. Hann hefur alist upp í þessum bransa og kann sitt fag, en hann var áður yfirhönnuður Halti, sem er mjög stórt útivistarmerki í Finnlandi. Við fórum að leggja meiri áherslu á það að nota hágæða efni í okkar hönnun.

Sérstað­an okkar byggir á tæknilegum, fjölhæfum efnum. Má þar nefna Diamondium, vatnshelt efni sem hentar í ysta lag og andar vel; Windzhield, vindhelt, teygjanlegt efni fyrir ytri lög; Superstretz, teygjanlegt, einangrandi efni í millilög; og Dryzo, þægilegt, fljótþornandi efni í innstu lög sem heldur raka frá húðinni. Þetta eru efni sem eru hönnuð til að vinna saman.

Í dag höldum við einnig á allri virðiskeðjunni. Við sjáum alveg um að kaupa allt sjálf af birgjum, en okkar birgjar eru að selja til stórra aðila á borð við The North Face og Peak Performance. Svo fylgjumst við náið með hinu flókna hönnunarferli sem liggur að baki hverri vörulínu hjá okkur og prófum allar flíkur í bak og fyrir við mismunandi skilyrði. Uppbygging á samböndum við framleið­endur og sú þekking sem hefur orðið til innan fyrirtækisins er eitthvað sem við lítum á sem gríðarlegan styrkleika. Faðir minn, sem er jafnframt eigandi fyrirtækisins, hefur til dæmis farið yfir 60 sinnum til Kína síðan árið 1994.

Borgin og náttúran saman í eitt

„Síðan fyrir ári eða svo fórum við í endurmótun eða „rebranding“ á vörumerkinu okkar með dönsku markaðsfyrirtæki, CO+, með það að leiðarljósi að gefa vörumerkinu alþjóðlegri brag. Þeir sérhæfa sig í því að byggja upp vörumerki. Við ákváðum að ráðast í það verkefni til að skerpa stefnuna hjá okkur og finna okkar hillu – að skilgreina nákvæmlega fyrir hverja við erum, hvernig vörumerki við viljum vera og hvernig við viljum markaðssetja okkur.

Í dag skilgreinum við okkur sem borgarútivistarmerki fyrir hina ævintýragjörnu. Við erum að blanda saman útivist og borgaralegum eða „urban“ klæðnaði. Svo tengjum við okkur mikið við Ísland. Ísland er tákn um hreinleika og ósnortna náttúru. En það þekkja allir – ferðamenn sem Íslendingar – hversu hverfult og breytilegt veðrið getur verið hérna. Við vitum það að við þurfum að vera vel útbúin, jafnvel í Reykjavík. Við notum því tæknileg efni en samt í borgaralegum sniðum og útliti í vörunum okkar. Við Íslendingar viljum vera vel útbúin, en samt ekki þannig að við lítum út eins og að við séum að fara upp á næsta fjallstind. Markmiðið okkar er að fólk geti ferðast óhindrað milli borgarinnar og náttúrunnar, hvernig sem viðrar.

Ég segi það alltaf að mín uppáhalds vörumerki eru þau sem ég kaupi aftur og aftur, af því að ég veit nákvæmlega að hverju ég geng. Það er þannig sem við viljum hafa ZO-ON, að fólk viti við hverju megi búast. Breytingar verða auðvitað að eiga sér stað og þær eru af hinu góða, en maður verður að vera stefnufastur yfir langan tíma til að ná árangri. Það er ákveðin list fólgin í að finna jafnvægið þar á milli.“

Hvaða árangri hefur endurskipulagningin skilað?

„Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð. Við kaupum vörumerkjamælingar á hverju ári og þær sýna að ímynd ZO-ON hefur tekið gríðarlegum framförum á stuttum tíma. Það skýrist meðal annars af bættri hönnun.“

Nánar er rætt við Halldór Örn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .