*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 17. mars 2018 12:01

Tökum ekki endalaust við

Nýr ferðamálastjóri á von á að komandi misseri einkennist af samruna í ferðaþjónustu og að meiri áhersla verði lögð á arðsemi af ferðamönnum frekar en fjölda.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Ég hef undanfarin ár rekið fyrirtæki í ferðaþjónustu, bæði úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef kynnst gistingu, afþreyingu og um tíma flugi. Ég hef því fjölbreyttan bakgrunn í ferðaþjónustu. Oft hafa þetta verið tímabundin verkefni þar sem ég hef aðstoðað fyrirtæki að komast út úr einhverju basli og þannig kynnst þeim veruleika sem ferðaþjónustan býr við,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.

„Ég kem inn með aðeins öðruvísi bakgrunn í þetta starf, bakgrunn sem ég held að gagnist ágætlega á þessum tímapunkti fyrir ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan er að ganga í gegnum talsvert miklar breytingar. Hún einkennist ekki lengur af frumkvöðlum, heldur eru fyrirtækin að komast á næsta stig. Það er ekki lengur endalaus vöxtur. Þegar fyrirtæki vex endalaust þá eru tekjurnar alltaf nægar og meiri á morgun en í dag. Þegar hægir á því þurfa menn að hugsa um kostnaðinn hjá sér. Það sem þrýstir líka á er styrking krónunnar, sem þú getur ekki bara ýtt út í verðlagið. Það verður að líta meira á kostnaðarhliðina. Það er ákveðið þroskamerki þegar fyrirtæki þurfa að gera það. Þá þarf einnig að skoða hvernig við getum aukið sjálfvirkni og fundið leiðir til að auka hagkvæmni. Þetta er á fullu í ferðaþjónustunni,“ segir Skarphéðinn.

„Þetta eru þær áskoranir sem ferðaþjónustan þarf að takast á við.“ Hvernig horfir staðan við þér varð­ andi tvennt sem þú nefnir, sameiningar og sjálfvirkni og líka staða ferðaþjónustu á landsbyggðinni? „Veruleikinn í ferðaþjónustu úti á landi er oft annar en á höfuðborgarsvæðinu. Það er ýmislegt sem kemur til, ekki bara vegalengdir heldur er samkeppnisumhverfið öðruvísi. Hegðun ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu er öðruvísi en víðast hvar úti á landi. Þeir stoppa styttra á hverjum stað á landsbyggðinni þannig að tilkostnaðurinn við hvern og einn gest er meiri. Með dýrtíðinni bendir líka ýmislegt til að dvalartími ferðamanna í landinu sé að styttast. Tími til að fara og njóta þess sem er boðið upp á úti á landi er því styttri. Kannanir benda til þess að ferðamenn komi hingað til að sjá ósnortna náttúru og það er úti á landi – þó svo að margt á höfuðborgarsvæðinu sé auðvitað vel gert,“ segir Skarphéðinn.

„Þegar rekstur í ferðaþjónustu verður til er það oft frumkvöðlar sem færa út kvíarnar í öðrum rekstri. Núna er hins vegar þörf á stærri og hagkvæmari einingum, sem gætu til dæmis gert betur í tæknimálum. Tæknistig víða í ferðaþjónustu er talsvert lágt og þarf að bæta mikið,“ segir Skarphéðinn.

„Þessi þróun hefur verið mjög áberandi í öðrum atvinnugreinum, til dæmis í sjávarútvegi og bankastarfsemi og við þurfum að sjá hana í ferðaþjónustu. Þetta þarf ferðaþjónustan að gera til að lækka kostnað. En til að geta farið í svona aðgerðir þurfa einingarnar að vera stærri og burðugri,“ segir Skarphéðinn. „Meðan það var endalaus vöxtur eins og hefur verið var enginn hvati til að grúska í kostnaðarhliðinni. Tekjurnar héldu bara áfram að hækka. Þetta er liðin tíð.“

Þarf að gæta að þolmörkum

Íbúar Reykjavíkur, og kannski sérstaklega þeir sem búa miðsvæðis, verða öðrum fremur varir við þann mikla fjölda ferðamanna sem sækja landið heim og í einhverjum tilvikum gætir pirrings í þeim hópi. Skarphéðinn segir að vissulega þurfi að taka tillit til bæði lands og þjóðar þegar ferðamennska er annars vegar.

„Þetta er eitthvað sem ferðaþjónusta og stjórnvöld eru meðvituð um. Nýleg rannsókn frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála bendir til að viðhorf landsmanna sé mjög jákvætt í garð ferðamanna og ég held að landsmenn sjái og skilji hvað ferðaþjónustan hefur gert gott fyrir hagkerfið almennt á undanförnum árum. Það er ekki þar með sagt að það þurfi ekki að gæta að þessu og að ferðamenn sem hingað koma séu í sátt við þá sem hér búa.“

Hann segir nauðsynlegt að gæta sérstaklega að þolmörkum, hvort sem þau eru félagsleg, efnahagsleg en ekki síst umhverfisleg. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ræddi í þessu samhengi að leggja á komugjöld hér á landi til að standa straum af auknum kostnaði vegna ferðamannastraumsins við viðhald og uppbyggingu innviða og að tekjur af gistináttagjaldi færist alfarið yfir til sveitarfélaga. Rétt er að taka fram að orð ráðherrans féllu eftir að rætt var við Skarphéðin.

„Ferðaþjónusta byggist á nýtingu auðlinda, sem er náttúran, landið og staðsetning landsins. Þar verðum við að passa okkur á að það sé gert með algjörlega sjálfbærum hætti því ef við göngum á þessa náttúru mun það bitna á ferðaþjónustunni til lengri tíma – fyrir utan að það er bara afar óskynsamlegt fyrir okkur og komandi kynslóðir. Þarna er verið að gera ýmislegt. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur verið starfræktur í allmörg á en síðan til að gera enn betur er verið að setja á stofn svokallaða landsáætlun, sem á að efla ferðamannastaði sem eru í umsjá ríkisins. Það er mjög margt verið að gera en við verðum að vera mjög meðvituð um þessi þolmörk.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim