Tólf umsækjendur eru um embættið aðstoðarseðlabankastjóra að því er kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Meðal umsækjenda eru Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, Guðrún Johnsen, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, Stefán Jóhann Stefánsson, ristjóri Seðlabanka Íslands, og Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Arnór Sighvatsson lætur af störfum í júní þegar hann lýkur öðru skipunartímabili sínu og má því ekki gegna embættinu lengur.

Forsætisráðuneytið auglýsti eftir umsækjendum þann 19. febrúar. Umsóknarfrestur rann út 19. mars og skipa á í embættið frá og með 1. júlí næstkomandi. Forsætisráðherra mun skipa nefnd til að meta hæfi umsækjenda. Niðurstaða hæfnisnefndar verður ráðgefandi fyrir forsætisráðherra.

Þá rennur annað skipunartímabil Más Guðmundssonar seðlabankastjóra út á næsta ári og hlakkar hann til að hætta að eigin sögn.

Umsækjendur eru eftirfarandi:

  1. Daníel Svavarsson, hagfræðingur, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.
  2. Guðrún Johnsen, hagfræðingur og lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
  3. Stefán Hjalti Garðarsson, reikni- og fjármálaverkfræðingur.
  4. Jón Þ. Sigurgeirsson, fram­kvæmda­stjóri alþjóða­sam­skipta og skrif­stofu banka­stjóra hjá Seðla­banka Íslands
  5. Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.
  6. Lúðvík Elíasson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands á sviði fjármálastöðugleika
  7. Ólafur Margeirsson, hagfræðingur.
  8. Rannveig Sigurðardóttir, staðgengill aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs bankans og ritari peningastefnunefndar Seðlabankans.
  9. Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur og ritstjóri Seðlabanka Íslands
  10. Tryggvi Guðmundsson, hagfræðingur.
  11. Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins
  12. Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands.

Fréttin hefur verið uppfærð en í upprunalegri frétt kom fram að þrettán hefðu sótt um stöðuna. Einn umsækjenda hafði dregið umsóknina til baka.