Brexit (úrsögn Breta úr Evrópusambandinu) er helsta viðfangsefni breskra fjölmiðla þessi misserin. Rík hefð er fyrir því í Bretlandi að dagblöð taki afstöðu í helstu þjóðmálum, en um það er almenningur meðvitaður, líkt og kemur fram í glænýrri könnun YouGov, svo það kemur varla mikið að sök.

Í ljósvakamiðlum er hlutleysiskrafan aftur miklu ríkari, ekki síst hjá ríkismiðlinum BBC. Því kemur það á óvart að 46% þeirra sem tóku afstöðu töldu BBC neikvætt í garð Brexit, 40% að það væri hlutlaust, en 8% að það væri hlynnt Brexit. Nú liggur ekki fyrir að þannig sé það, en það hlýtur a.m.k. að vera BBC áhyggjuefni að almenningur haldi það.