Farsímatæknin hefur öðlast skjótari útbreiðslu en nokkur önnur tæknibylting mannsins og snjallsímabyltingin alveg sérstaklega. Enginn þarf að efast um það eða áhrif þess, þegar litið er á heimskortið að ofan, þar sem sýnd er hlutfallsleg útbreiðsla farsímaáskrifta sem hlutfall af mannfjölda.

Í heiminum eru ögn fleiri farsímaáskriftir en fólk, um 7,6 milljarðar áskrifta. Ástæðan er sú að sumir eiga fleira en eitt tæki sem notar farsímanet, sumir eru bæði með vinnusíma og einkasíma, en svo eru einhverjar óvirkar áskriftir.

Jafnvel þegar tillit hefur verið tekið til þess eru eiginlegir áskrifendur samt taldir vera 5,2 milljarðar, sem er feikilega mikið og þýðir að börn og unglingar séu þar stór hópur. Og kannski er merkilegast að í þessari tæknibyltingu hefur þróunarheimurinn ekki orðið út undan.