Ríkisfjölmiðlar í lýðræðisríkjum hafa einkum verið bundnir við öldur ljósvakans, allt frá því að hinn áhrifamikli miðill, útvarpið, ruddi sér rúms um svipað leyti og ríkisvaldi óx víða fiskur um hrygg í takt við tíðaranda millistríðsára liðinnar aldar. Þeir eru hins vegar mjög misfyrirferðarmiklir eftir löndum, nokkuð eftir hefðum og hugmyndum um hlutverk ríkisvaldsins í þjóðlífinu. Þetta má glögglega sjá af því hve miklu er varið af almannafé til þess að halda út miðlum ríkisvaldsins eftir höfðatölu. Þar er Ísland í fremstu röð, með liðlega tvöfalda upphæð miðgildisins.