Kosið verður eftir rúmar fimm vikur og ekki ósennilegt að kosningabaráttan verði óvenjuhörð og snörp. Í þessum dálki verður því umfjöllun um stjórnmál í brennidepli fram að kosningum, ef ekki lengur.

Að ofan má sjá hlutfallslegt magn frétta um stjórnmálaflokka í öllum almennum fréttamiðlum undanfarinn mánuð. Þar hafa stjórnarflokkarnir fengið mest rými, eins og vant er, svona nánast í réttu hlutfalli við fjölda ráðherra.

Að miklu leyti stafa þeir yfirburðir sjálfsagt af vandræðum í stjórnarsamstarfi og stjórnarslitum, sem fjölmiðlar hafa fjallað mikið um. Því verður fróðlegt að fylgjast með því næstu vikur, hvernig stjórnarandstöðuflokkum og lífvænlegum framboðum vegnar í umfjöllunarmælingum fjölmiðlavaktar CreditInfo.